149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að ég og framsögumaður séum báðir jafn miklir áhugamenn um lágt vöruverð. Það vill þannig til að það er fleira en landbúnaðarafurðir sem er selt á Íslandi og skapar það háa vöruverð sem hv. þingmaður minntist á áðan. Það er hins vegar þannig að bændur eru líklega einir af fáum mönnum á Íslandi sem stunda atvinnu og eru í beinni samkeppni við niðurgreidda og styrkta framleiðslu annars staðar, sem gerir stöðu þeirra dálítið þrengri.

Í dag er ein týpa af því að bændur selji sjálfir og séu sjálfir í samkeppni innbyrðis og það eru kartöflubændur, sem eru ofurseldir þriðja aðilanum sem vantar inn í þetta frumvarp, þ.e. versluninni, fákeppninni. Ég hef ekki enn þá hitt kartöflubónda sem hefur þorað að opna sig um þau viðskiptakjör sem þeim eru boðin af ótta við að missa viðskipti. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Er það ætlan flutningsmanna að allir aðrir bændur (Forseti hringir.) á Íslandi fari þá sömu leið, að keppa innbyrðis og verði ofurseldir valdi kaupmanna?