149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:43]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að fjalla stuttlega um þetta frumvarp, kannski víkka umræðuna örlítið og tala um kerfið í sjálfu sér.

Ég vil byrja á að segja að að mínu viti eru bændur, og ég veit að allir hér í salnum eru sammála þeirri fullyrðingu, harðduglegt fólk og nauðsynleg stétt í landinu sem ber að hlúa að. En mér finnst og hefur fundist lengi að landbúnaðarkerfið allt og í rauninni núverandi landbúnaðarráðherra og fjölmargir aðrir landbúnaðarráðherrar deili ekki þeirri skoðun minni að bændur geti spjarað sig án mikilla afskipta ríkisvaldsins. Þetta er auðvitað ekki ný umræða en engu að síður mikilvæg og við þurfum að taka hana. Mér finnst núverandi landbúnaðarkerfi einfaldlega lýsa gríðarlegri vantrú á bændum. Kerfið setur hömlur á stéttina og kemur í veg fyrir nýliðun. Í raun kemur það í veg fyrir að íslenskir bændur geti nýtt sér þá hlutfallslegu yfirburði sem þeir hafa. Íslenskir bændur hafa vissulega hlutfallslega yfirburði. Allar stéttir og hver einstaklingur hefur hlutfallslega yfirburði í einhverju og íslenskir bændur hafa það svo sannarlega, en mér finnst kerfið virka hamlandi á stéttina í heild sinni.

Ég er sannfærður um að staða bænda gæti verið miklu betri í öðru kerfi, að ég tali ekki um hag neytenda. Það er engin tilviljun að hver einustu neytendasamtök eða Samkeppniseftirlitið í landinu hafi kallað eftir meira frjálsræði í landbúnaðarmálum. Það er engin tilviljun að þessar stofnanir, hvort sem þær eru opinberar eða einkasamtök sem eru að berjast fyrir hag neytenda, hafa einmitt kallað eftir grundvallarbreytingum á kerfinu sem slíku. Þetta eru samtök sem eru að berjast fyrir hag neytenda. Öll erum við neytendur og bændur eru það að sjálfsögðu líka. Það er ansi langsótt að halda að núverandi kerfi sé sérstaklega í hag neytenda. Ekki má gleyma því að við erum með tolla og tilgangur tolla er að hækka verð, annars værum við ekki að setja tolla. Tollar vernda annars vegar fyrir innflutningi og eru síðan til að hækka verð. Það er tilgangur þeirra. Við höfum búið til kerfi sem a.m.k. í orði kveðnu á að styðja við bændur en ég held að dæmin sýni einmitt að það grefur undan stéttinni ef eitthvað er.

Bændur eru núna að hluta til bundnir á klafa opinberrar verðstýringar og opinberrar framleiðslustýringar. Auðvitað hefur ýmislegt breyst undanfarin ár, ég átta mig alveg á því, en samkvæmt tölum OECD er íslenska landbúnaðarkerfið eitt það dýrasta í heimi og íslenskur landbúnaður nýtur einnar mestu verndar í heimi. Við höfum verið þarna á toppnum með Sviss og Noregi og sá samanburður sýnir meira að segja að tollvernd á mjólkur- og kjötvörum á Íslandi er jafnvel umtalsvert meiri en bæði í Noregi og Sviss. Þetta eru samt ríki sem vernda sinn landbúnað talsvert mikið. Þetta er talsvert meiri vernd en Evrópusambandið kýs að standa fyrir.

Mér finnst það frekar niðurlægjandi staðreynd, því miður, ég verð að segja það, fyrir íslenska landbúnaðarkerfið að hlutfall íslensks landbúnaðar af landsframleiðslu er svipað hátt og beinu og óbeinu styrkirnir. Það er hlutfall íslensks landbúnaðar, svipað hátt og hlutfall beinu og óbeinu styrkjanna sem hið opinbera býr greininni. Mér finnst það óþarfi. Ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði og ég held að hann spjari sig án svona mikilla afskipta opinberra aðila.

Ég vil samt styðja íslenskan landbúnað. Ég vil bara gera það með öðrum hætti. Ég held að flestir sérfræðingar hafi einmitt verið að kalla eftir því að við styðjum bændur með beinum hætti, með grænum styrkjum og byggðastyrkjum en ekki markaðsbjagandi stuðningi. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að styðja við bændur. Ég vil íslenskan landbúnað og hann er sérstakur. Hann býr við erfiðar aðstæður og öðruvísi aðstæður en víðast hvar í heiminum, ég átta mig algerlega á því, en við getum í æ meira mæli stutt hann með skilvirkari hætti þannig að stuðningurinn gerist ekki svo mikið á kostnað neytenda en hjálpar samt stéttinni og bændum.

Bændur hafa það ekkert sérstaklega gott á Íslandi almennt séð og samt er kerfið eitt það dýrasta í heimi. Bara sú staðreynd hlýtur að vera vísbending um að við séum á rangri braut. Það er eflaust hægt að tína til að eitthvað hafi færst til batnaðar og annað slíkt en eftir stendur sú staðreynd að bændur á Íslandi hafa það ekki sérstaklega gott almennt séð, síst sauðfjárbændur, þrátt fyrir mikinn stuðning og mikla vernd. Af hverju megum við ekki taka opinskáa umræða um hvernig við breytum kerfinu?

Mér finnst eins og ég segi núverandi kerfi lýsa miklu vantrausti á íslenska bændur, að þeim sé ekki treyst til að spjara sig á frjálsum markaði, en ég get fullvissað þingheim um að ég ber fullt traust til íslenskra bænda, um að þeir spjari sig vel. Fái þeir að njóta sín og sinna hlutfallslegu yfirburða munu þeir hagnast á því.

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að ekki sé ruglað saman landbúnaðarkerfinu og bændum. Þetta er ekki sami hluturinn. Landbúnaðarkerfið er ekki bændur og bændur eru ekki landbúnaðarkerfi. Það má ekki skýla sér á bak við bændur þegar vonlaust landbúnaðarkerfi er varið.

Oft er fullyrt að jafnvel hagfræðileg lögmál gildi ekki um landbúnað og að opinber verðstýring sé neytendum til góðs. Það er ýjað að því að samkeppni sé jafnvel ekki æskileg á þessum markaði og gott ef fjölmargir landbúnaðarráðherrar undanfarinna ára hafi ekki látið hafa það eftir sér að það væri alveg agalegt ef samkeppnislög giltu um landbúnaðinn. Skýrt dæmi um þetta er að finna í búvörulögum þar sem veittar eru ýmsar undanþágur frá samkeppnislögum. Í búvörulögum er t.d. afurðastöðvum í mjólkuriðnaði leyft að gera samninga sín á milli um verð og framleitt magn ásamt því að sameinast undir aðstæðum sem samkeppnislög heimila almennt ekki.

Herra forseti. Samkeppni er iðulega talin nauðsynleg til að auka velferð almennings og laða fram jákvæða hluti í atvinnulífinu. Þetta eykur almannahag. Þetta þurfti maður að læra á fyrsta ári, fyrstu mánuðunum í viðskiptafræði og hagfræði, að greina hvaða afleiðingar tollar hafa á landbúnað. Það minnkar hag neytenda og almennings en getur bætt tímabundið hag þröngs hóps framleiðenda. Það getur gert það, enda er það tilgangurinn með styrkjakerfinu og tollakerfinu, a.m.k. hugsunin. Það er verið að vernda vissan anga af hagkerfinu, atvinnulífinu, það er tilgangurinn með því. Við skulum ekki halda því fram að landbúnaðarkerfið eins og það er í dag stuðli að því að hagur neytenda vænkist. Það er alls ekki svo og ég vona að flestir séu a.m.k. sammála mér um það.

Það eru engin ný vísindi að samkeppni almennt séð tryggi lægra verð til neytenda og tryggi hagkvæmni í rekstri fyrirtækja. Það er bara ein af niðurstöðum viðskiptafræðinnar að samkeppni almennt séð sé til góðs á neytendamarkaði. Þetta eiga ekki að vera ný tíðindi. Samkeppni er almennt til góðs á neytendamarkaði. Samkeppnin elur af sér nýjungar, bættar framleiðsluaðferðir, hvetur fyrirtæki til að gera betur gagnvart viðskiptavinum sínum. Skortur á samkeppni og samkeppnishömlur valda þar af leiðandi annars vegar neytendum tjóni oft og tíðum og atvinnulífinu hins vegar. Tjónið felst í hærra vöruverði, lakari þjónustu, minna aðhaldi í rekstri fyrirtækja o.s.frv.

Við eigum ekki að sætta okkur við að búa við eitt hæsta matvælaverð í heimi. Nú ætla ég ekki að fara að rífast við einstaka þingmenn um hversu hátt matvælaverð er á Íslandi. Almennt séð er það í hærri kantinum. Við getum vonandi verið sammála um það. Matur á Íslandi er dýr, bæði innfluttur og innlendur þannig að ég taki það alveg fram, en innfluttur matur á Íslandi er dýrari en ella út af styrkjakerfinu. Eins og segi er það hugsunin með styrkja- og verndarkerfinu — (Gripið fram í.)tollakerfinu.

Í landinu eru 360.000 neytendur. Við eigum að vera sammála um að reyna að lækka matvælaverð. Ein leiðin að því er að innleiða hér aukna samkeppni og aukið frjálsræði á neytendamarkaði, á landbúnaðarmarkaðnum, og bónusinn að mínu mati er að hagur bænda muni vænkast við það. Ég ætla ekki að gera þetta á kostnað bænda. Ég er að segja að bændur muni hagnast í opnara og frjálsara kerfi. Dæmin sýna það. Þegar tollverndin var afnumin á tómötum, gúrkum og papriku árið 2002 heyrðist: Ætlið þið algjörlega að rústa þeim bændum sem starfa á þeim markaði? Þær raddir heyrðust á þeim tíma. Niðurstaðan á þessum markaði var almennt séð, nú er ég svolítið að alhæfa, að meira seldist af þessari innlendu grænmetisframleiðslu, framleiðnin jókst og launin hækkuðu. Takið eftir því að launin hækkuðu samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar í þessari grein á þeim tíma sem Hagfræðistofnun skoðaði.

Við sáum það þegar við heimiluðum innflutning á erlendum ostum. Hvað gerðist? Við fengum fleiri innlenda osta. Við fáum erlendu ostana, já, en við fáum fleiri tegundir af innlendum ostum. Íslenskir bændur bregðast við samkeppni því að þeir eru góðir í því ef þeir fá frelsi til þess. Samkeppni erlendis frá er góð fyrir þá þannig að ég óttast ekki að íslenskir bændur geti ekki mætt erlendri samkeppni eins og þeir hafa gert á þeim sviðum þar sem frjálsræði þó ríkir. Það er það sem ég er að kalla eftir. Leyfum íslenskum bændum að blómstra. Leyfum þeim að mæta erlendri samkeppni og þá þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur.

Ég er samt stuðningsmaður þess að ríkið, skattgreiðendur, komi með beinum hætti að styrkjum og stuðningi íslensks landbúnaðar. Grænir styrkir, beinir styrkir. Þetta er það sem Evrópusambandið, OECD, WTO og fleiri hafa sagt við öll lönd: Jú, jú, þið megið styrkja landbúnað en gerið það með þessum hætti.

Hættum þessu tollabulli. Tollar eru tímaskekkja. Tollar eru kostnaðarsöm leið til að vernda eitthvað. Við höfum séð það í 60 ár. Styðjum bændur með öðrum og skilvirkari hætti sem er bæði þeim í hag en ekki síst neytendum.

Við eigum að innleiða markaðslögmálin í íslenskan landbúnað. Það væri einmitt bændum til hagsbóta og það væri svo sannarlega neytendum til hagsbóta. Markaðshagkerfi hefur margsannað sig aftur og aftur á hinum hefðbundna neytendamarkaði. Það kann að koma sumum á óvart en markaðslögmálin gilda á Íslandi eins og annars staðar. Markaðslögmálin eiga ekki að búa við óheft umhverfi. Við jafnaðarmenn höfum aldrei talað fyrir því en við höfum alltaf talað fyrir því að við viljum öfluga samkeppnislöggjöf. Mjólkursamsalan er með 98%, var það a.m.k. árið 2016, markaðshlutdeild á mjólkurvörumarkaðnum samkvæmt fullyrðingum forstjóra Kú. Það var aðeins komið inn á að markaðshlutdeildin væri ekkert sérstaklega há.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur kallað samkeppnislöggjöf stjórnarskrá atvinnulífsins. Mér finnst það svolítið flott. Samkeppnislöggjöfin er stjórnarskrá atvinnulífsins. Hún er gríðarlega mikilvæg, ekki síst gagnvart minni fyrirtækjum og gagnvart nýjum fyrirtækjum sem vilja láta til sín taka.

Þess vegna hvet ég úr þessum ræðustól til þess að við förum að hugsa upp nýjar leiðir til að hægt sé að búa til sterkt landbúnaðarkerfi, skilvirkari stuðning við landbúnaðinn, aukið frjálsræði og frelsi og öfluga nýliðun meðal íslenskra bænda. Ég fullyrði úr þessum stól að núverandi landbúnaðarkerfi er dragbítur á bændur og í raun óvinur neytenda.

Að lokum, herra forseti, vil ég upplýsa þingheim um það að ég flutti nánast sömu ræðu fyrir 15 árum þegar þáverandi ráðherra, Guðni Ágústsson, kom í þennan sal með frumvarp þar sem hann óskaði eftir því að hann gæti undanskilið mjólkuriðnaðinn frá samkeppnislögunum. Samfylkingin hafnaði því að sjálfsögðu en engu að síður var það samþykkt. Það er sorglegt að við höfum ekki tekið nein skref hvað varðar bara þennan einstaka hluta með skýrari hætti en raun ber vitni. Mér finnst sérkennilegt að ég skuli geta haldið nánast sömu ræðu á 15 ára fresti þegar kemur að landbúnaðinum.

En ég læt þetta duga í bili, herra forseti.