149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:58]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvers konar styrki? Ég nefndi sérstaklega dæmi um styrki sem ég styð og margir sérfræðingar einnig, þar á meðal sérfræðingar frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, OECD, Evrópusambandinu, hagfræðingar og fleiri sem láta sig ekki bara varða hag bænda, heldur líka neytenda með því að við styrkjum þá með beingreiðslum. Þær þekkjast líka hér, ég átta mig alveg á því. En við skulum gera það. Við erum enn þá með markaðsbjagandi stuðning. Tollar eru vond leið. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum ósammála um það. Tollar eru vond leið til að styðja við landbúnað. Tollar halda verði uppi. Jú, styðjum við landbúnaðinn, en gerum það með beinum hætti. Grænir styrkir, umhverfisstyrkir, byggðastyrkir, landnýtingarstyrkir og hvað sem þeir kallast — notum þá í meira mæli ef við viljum styrkja landbúnað.

Við erum með búvörusamning sem er 14 milljarðar á ári í tíu ár, verðtryggt. Óbeini stuðningurinn er um 9–10 milljarðar. Það er 25 milljarða stuðningur á ári. Það er mikill stuðningur. Engu að síður er hagur bænda ekki eins góður og kostur er. Ég veit að hv. þingmaður hlýtur að vera sammála því. Hagur bænda (Forseti hringir.) er ekki eins og hann ætti að vera. Þess vegna megum við ekki rugla saman kerfinu og bændum. (Forseti hringir.) Þetta er hvor sinn hluturinn í mínum huga.