149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að svara hvorugri spurningunni sem ég bar upp og bið hann þess vegna að nota seinna andsvarið til að gera það.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um opinbera verðstýringu. Það vill nefnilega þannig til að þrátt fyrir opinbera verðstýringu ákváðu sláturleyfishafar á Íslandi í fyrra að lækka verð til sauðfjárbænda um 29% einhliða. Þessi 29% hafa ekki skilað sér í lambalæri sem ég kaupi einu sinni í viku. Spurningin er: Hvar lentu þessi 29% og hefði það breytt einhverju ef verðlagningin hefði verið með einhverjum öðrum hætti? Og hver hefði þá átt að verðleggja það? Hver hefði átt að bera ábyrgð á þeirri verðlagningu?

Ég spyr hv. þingmann aftur: Hvert hafa þessi 29% runnið? Þau hafa ekki runnið til neytenda, þau runnu ekki til bænda. Við getum kannski farið að kanna hvert þau runnu.

En talandi um samkeppni. Ég er mjög fylgjandi samkeppni og það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að við séum ósammála um tolla á landbúnaðarafurðir enda eru nánast ekki lagðir tollar á neina einustu landbúnaðarafurð sem flutt er til Íslands. Allt korn og fleira er án tolla, (Forseti hringir.) þannig hefur það verið árum saman, þannig að ég er alls ekki ósammála þingmanninum um þetta, þvert á móti.