149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:05]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, við höfum sem betur fer verið að draga úr tollverndinni. Það er vísbending um að það sem ég er að segja eigi kannski hljómgrunn. Við höfum haft fólk í landbúnaðarráðuneytinu úr ýmsum flokkum sem hefur einmitt áttað sig á því að tollverndin er slæm leið til að vernda landbúnað. Það er jákvætt. Þróunin er því að draga úr tollum. Það sem ég er að segja er: Flýtum einfaldlega þeirri þróun. En eftir stendur að hinn svokallaði óbeini stuðningur við íslenskan landbúnað er um 10 milljarðar á ári. Það er fyrst og fremst fólgið í tollverndinni þannig að það eru fjölmargir tollar eftir.

Mig minnir að tolltekjurnar í fjárlögum séu 2 eða 3 milljarðar, en tollverndin veldur kostnaði fyrir íslenskt hagkerfi og íslenska neytendur. Það er það sem ég er að draga fram. Það er því ekki rétt að líta bara á tolltekjurnar í fjárlögunum. Við þurfum líka að líta á fórnarkostnaðinn og þann kostnað sem íslensk heimili, þar á meðal íslensk bændaheimili, verða fyrir út af þessari leið sem ég held að flest ríki séu einmitt að hverfa frá. Við eigum að styrkja landbúnaðinn, ég ítreka það, (Forseti hringir.) með beinum grænum hætti, (Forseti hringir.) og spyrja hvað er best fyrir neytendur, umhverfið og bændur ekki síst.