149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir vil ég þakka þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hv. þingmaður talar um græna styrki, grænan stuðning. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé fylgjandi því að fara sömu leið og hefur verið stunduð innan Evrópusambandsins, þ.e. að styrkja landeigendur, að landeigendur fái styrki út á ræktað land, svo dæmi sé tekið. Þá spyr ég hvort hann sé sammála því að auðkýfingarnir sem hafa verið að kaupa upp jarðir úti um allt Ísland, t.d. fyrir austan, fái þá styrki vegna þess að það eru þeir sem eiga landið. Er það þannig sem hv. þingmaður sér það? Eiga bresku auðkýfingarnir að fá styrkina til þess að geta svo leigt okkur, hinum leiguliðum, þá styrki?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við það að Evrópudómstóllinn hafi í nóvember 2017 kveðið upp þann úrskurð að innan ákveðinna takmarkana megi hafa samráð varðandi verðlag og magn í framleiðslu á landbúnaðarafurðum, vegna þess að þannig er það. Þingmaðurinn talar um að engar takmarkanir séu á því, samkeppni sé alveg frjáls í heiminum, en það er ekki þannig.

Ég spyr hv. þingmann líka: Getur þingmaðurinn nefnt eitt land í heiminum sem landbúnaðarframleiðsluland sem ekki er með tollvernd eða einhvers konar aðra vernd á landbúnaði sínum?