149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:10]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um ESB. Ég hef sagt úr þessum ræðustóli áður og skal segja það aftur: Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er mjög vitlaus og hefur verið það áratugum saman. [Hlátur í þingsal.] Á ég að segja ykkur svolítið annað? Íslenska landbúnaðarkerfið er enn vitlausara. Dettur fólki í hug að ég standi hér í ræðu og fari að verja landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins af því að ég vil ganga í Evrópusambandið? Hvers konar Evrópublindu haldið þið að við séum haldin? [Hlátur í þingsal.] Við getum alveg krítíserað Evrópusambandið á þann hátt sem við gerum.

En tökum sjávarútveginn sem dæmi. Við styrkjum íslenskan sjávarútveg afskaplega lítið, við vorum með sjómannaafslátt og styrkjum hann í gegnum rannsóknir og annað slíkt. Við erum í fararbroddi í sjávarútvegi í því að draga úr ríkisstyrkjum. Af hverju getum við ekki gert það í landbúnaði sömuleiðis? Af hverju þurfum við að elta toppana í ríkisstuðningi, sem eru Sviss og Noregur? Þegar Ísland fer á ráðstefnur Alþjóðaviðskiptastofnunar erum við í þeim hópi ríkja sem krefst mestrar verndar í landbúnaði en minnstrar verndar í sjávarútvegi. Þetta er bullandi (Forseti hringir.) tvískinnungur af því að annað hlýtur að vera rétt. Hvort tveggja getur ekki verið rétt ef litið er til röksemdanna.