149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:12]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta mál hafi batnað á þeim 15 árum frá því að það var fyrst flutt. Hv. þingmaður talaði um að bændur væru harðdugleg og mikilvæg stétt. Ég er alveg hjartanlega sammála og ég held að okkur þyki í hjörtum okkar öllum vænt um bændur. Reyndar þykir mér sérstaklega vænt um einn, en það er nú önnur saga. (Gripið fram í: Vanhæf.) — Já, líklega má segja að ég sé þá vanhæf, en þó ekki.

Hv. þingmaður talar um að búvörusamningurinn hamli framþróun. Ég verð að segja að ég efast um að hv. þingmaður hafi lesið samninginn. Þar eru grænir styrkir, þar eru nýliðunaðarstyrkir og fleiri beinir styrkir. Ég vil benda hv. þingmanni sem talar um að þessi samningur hafi hamlað framþróun á að árið 1990 voru 2.000 kúabændur sem framleiddu 100 milljónir lítra. Í ár framleiða 550 bændur 150 milljónir lítra. Það eru líklega fáar atvinnugreinar sem hafa náð slíkri framleiðsluaukningu. Hvernig getur það staðist, hv. þingmaður?