149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:13]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að efast eina sekúndu um að hv. þingmaður hafi betri innsýn í landbúnaðinn en ég. Þess vegna tala ég svolítið á almennum nótum um kerfið. Og hafi landbúnaður tekið framförum, sem ég tók sérstaklega fram að hann hefði gert, er það afskaplega jákvætt. Oft eru framfarirnar byggðar á því frjálsræðisskrefi sem við tökum þó.

Búvörusamningurinn er 14 milljarðar í tíu ár, verðtryggt. Það er hár verðmiði, finnst mér, fyrir ekki meiri afrakstur en þann að bændur, ekki síst sauðfjárbændur, hafa það ekkert sérstaklega gott.

Ég veit að hér hefur orðið samþjöppun í mjólkuriðnaðinum og meðal mjólkurbænda og er það vel. Við höfum ekki óttast það. Stundum þarf að sameina. Stundum fara bú og fyrirtæki á hausinn og annað slíkt. Leyfum bara fyrirtækjum að blómstra. Það eina sem ég er að kalla eftir er að við treystum landbúnaði án of mikilla afskipta okkar af markaðnum sjálfum. Búum landbúnaðinum fyrst og fremst góð skilyrði með lágum vöxtum, stöðugum gjaldmiðli og helst nýjum gjaldmiðli. Síðan skulum við hlúa að honum með sérstökum hætti, með grænum hætti (Forseti hringir.) einmitt í þeim anda sem OECD og Alþjóðaviðskiptastofnunin hafa verið að kalla eftir. (Forseti hringir.) Það er ekki neitt nýtt sem ég segi úr þessum ræðustól, herra forseti.