149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:17]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur farið hér fram og sérstaklega frummælanda, hv. þm. Þorsteini Víglundssyni. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og búnaðarlögum, þótt umræðan hafi svo sem farið á önnur svið áðan og það er bara gott.

Áður en lengra er haldið langar mig að svara einni spurningu fyrir hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson sem hann komst ekki til að svara áðan þegar hv. þm. Gunnar Bragi spurði um stöðuna á Nýja-Sjálandi þar sem engir tollar eru. Ég ætla bara að svara henni, það er alveg rétt að á Nýja-Sjálandi eru ekki tollar, en þar flytja menn bara ekki inn landbúnaðarvörur. Það vita þeir sem vilja vita. Ef menn koma með eitt epli með sér eru þeir settir í fangelsi. Svoleiðis er það nú þar. Þannig fara þeir með sína tollvernd, þetta er bara bannað.

En við erum ekki að ræða það. Það sem við ræðum hér er frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og búnaðarlögum. Það vill svo skemmtilega til að fyrir um ári síðan var sá sem hér stendur einnig varaþingmaður og þá var þetta efni til umræðu þannig að það er ágætt að taka þessa umræðu í hvert skipti sem maður kemur inn á þing. Virkilega ánægjulegt. Menn velta fyrir sér ýmsu varðandi Mjólkursamsöluna, beina sjónum sínum að henni fyrst og fremst, þ.e. mjólkuriðnaðinum og þeirri sérstöðu sem mjólkuriðnaðurinn hefur miðað við aðrar afurðastöðvar hér á landi. Samkeppni er af hinu góða. Því er ég alveg sammála. En samkeppni þarf þá líka að vera á þeim grunni að menn geti tekið á móti í samkeppninni en ekki verið með hendur bundnar fyrir aftan bak.

Af hverju segi ég það? Jú, það er nú einu sinni þannig að það er innflutningur til landsins á ýmsum vörum, þar á meðal mjólkurvörum, þó að það séu einhverjir tollar á þessum mjólkurvörum líka. Þá erum við í sjálfu sér að keppa á alþjóðamarkaði. Við keppum við risafyrirtæki í mjólkurframleiðslu. Flutningsmanni sérstaklega og fleirum sem hafa talað hér í þessari umræðu er mjög umhugað um samkeppni og hagræðingu sem á sér stað í greininni til að skila neytendum lægra vöruverði. Nú tek ég fram að ég er ekki menntaður hagfræðingur en mér skilst á hagfræðingum að það sé yfirleitt heppilegt að hagræða í greininni til þess að ná fram lægra vöruverði. Með leyfi forseta gríp ég hér niður í Bændablaðinu síðasta, í ágætisgrein eftir Snorra Sigurðsson. Þar kemur fram að 20 stærstu afurðafyrirtæki heims eru með 25% af allri framleiðslu á mjólk. Það er nú töluvert. Þetta eru risafyrirtæki eins og t.d. Nestlé í Sviss, en talan sem ég fer með hér á eftir snýr eingöngu að mjólkurafurðum. Veltan hjá Nestlé í Sviss árið 2017 var 2.807 milljarðar íslenskra króna.

Í þessu frumvarpi er talað um að veita bændum frelsi til að blómstra á markaði, koma sínum vörum á markað o.s.frv. Gott og vel. Það hefur einnig komið fram í umræðunni fyrr í kvöld að það er engum bannað að vera ekki bara í viðskiptum við Mjólkursamsöluna. Það er búið að minnast hér á Örnu og fleiri minni mjólkurbú. Það má líka og er algerlega nauðsynlegt að hafa með í umræðunni að það eru skyldur lagðar á fyrirtækið Mjólkursamsöluna. Mjólkursamsalan er skyldug til að taka alla mjólk hvar sem hún er á landinu fyrir sama verð. Það er flutningsjöfnun á milli bænda. Það er ekki gert upp á milli bænda eftir því hvar þeir búa á landinu. Mjólkursamsalan verður einnig að afhenda ákveðið magn af mjólk til mjólkurstöðva eins og Örnu í Bolungarvík og fleiri fyrirtækja. Mjólkursamsalan þarf einnig að taka við þeim hráefnum sem nýtast henni ekki í sinni framleiðslu.

Ég myndi segja að þrátt fyrir að einhverjir hnökrar hafi verið í byrjun á starfsemi þessara fyrirtækja horfi það til betri vegar því að menn eru að reyna að sníða kerfið að því að lítil fyrirtæki geti unnið á þessum markaði.

Ég ætla að grípa niður í greinargerðinni sem fylgir þessu frumvarpi og velta fyrir mér ýmsum þáttum í henni. Það kemur t.d. fram að í gildandi lögum hafi bændur sérstaka stöðu sem helst verði líkt við stöðu launþega í þjónustu afurðastöðva og hins opinbera. Já, það er merkilegt hvernig á þetta er litið. Eftir minni bestu vitneskju er það nú þannig að Mjólkursamsalan er í eigu bænda. Þegar farið var í þessa vegferð árið 1990, ef ég man rétt, hafði verð til bænda lækkað um 12,4% á tíu árum á sama tíma og vinnslu- og dreifingarkostnaður hafði hækkað um 10,5%. Það var ekki bara af-því-bara að menn fóru í þessa hagræðingu. Þá voru vinnslustöðvarnar 19 um landið. Þeim var fækkað niður í fimm og starfsfólki fækkaði um 30%.

Hvað hefur gerst? Verð til bænda er ákveðið af verðlagsnefnd, þ.e. verð til neytenda á ákveðnum vörum er ákveðið af verðlagsnefnd og síðan er ákveðið verð sem bændur fá. Ég tel að sú hagræðing sem farið var í á sínum tíma hafi verið bæði neytendum og bændum í hag. Við þekkjum líka til stöðunnar, og hefur verið minnst á það fyrr í dag, hjá öðrum afurðastöðvum sem sýsla með kjöt. Þar er allt önnur staða. Staða sauðfjárbænda hefur oft verið til umræðu í þessum stól. Ég velti því upp og langar að skjóta því hér inn í salinn: Hvað sjáum við fyrir okkur ef við tækjum líka afurðastöðvarnar fyrir kjöt og settum þær í sama módel og MS? Er ekki líklegt að við næðum að spara töluvert mikið í kostnaði? Verð gæti hugsanlega hækkað. Ég get ekki séð annað en að verð kæmi til með að hækka til bænda við það að hagræða í rekstri. Það er alveg ljóst.

Ég legg til að menn horfi svolítið lengra fram á veginn. Hér eru menn að tala um afnám tolla og hitt og þetta. Eigum við ekki bara að horfa á þetta með þeim augum að við séum í samkeppni á alþjóðamarkaði? Vissulega eru þessi fyrirtæki hérna pínulítil. Þá borgar sig ekki að standa í því að kljúfa þau upp og gera enn minni. Reynum frekar að framleiða hagkvæma vöru eins og mögulegt er á góðu verði með háum gæðum. Það er lykilatriði. Og það hlýtur að vera gert með því að hafa undanþágur frá samkeppnislögum, nákvæmlega eins og við erum með í mjólkinni. Það væri óskandi ef við gætum farið þá leið að gera hið sama í afurðastöðvum í kjöti, nálgast hlutina þannig að það væri heimilt að vinna þar saman, vissulega með einhverjum skilyrðum, bæði bændum og neytendum til heilla.

Ég sé ekki að verið sé að bregða fæti fyrir litla framleiðendur í mjólkuriðnaði eins og staðan er í dag, ég nefni t.d. Beint frá býli o.s.frv. Ég verð að minna á það að í dag var verið að veita verðlaun á matvæladegi Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands, og þrjár af fimm tilnefningum til Fjöreggsins, verðlaunanna, voru vegna nýsköpunarhugmynda í mjólk. Þar voru t.d. Efstidalur í Bláskógabyggð sem er dæmi um býli sem selur beint frá býli og Erpsstaðir í Dalasýslu sem eru með ís- og skyrframleiðslu. Þetta er nú hægt í því kerfi sem við lifum við í dag. Ég sé ekki að þetta kerfi sé, eins og menn vilja tala um, hamlandi við svona framleiðslu. Þetta hjálpar til og menn eru að vinna einhvern vissan hluta úr sinni mjólk, megnið af annarri mjólk fer síðan í afurðastöð.

Hér hefur verið umræða um tolla. Það eru tollar alls staðar, misháir. Beitt er alls konar brögðum og tólum til að hægja á umferð í gegnum tollhlið. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var spurður áðan um þetta og nefndi Nýja-Sjáland sem væri ekki með neina tolla. Merkilegt nokk eru tollar inn í Evrópusambandið, fyrirheitna landið. Það eru tollar inn til Kanada, svo eitthvað sé nefnt. Þetta þekkjum við alveg. Það hafa fallið þó nokkuð mörg falleg orð í garð landbúnaðarins og menn hafa mikla trú á honum og þess háttar en leyfum þá landbúnaðinum að starfa í því umhverfi sem við viljum sjá, við viljum að afurðageirinn geti hagrætt, geti verið í vöruþróun og boðið neytendum hágæðavöru á góðu verði.

Í þessu frumvarpi er ekki bara verið að fjalla um búvörulög. Það er einnig verið að fjalla um búnaðarlög. Ég gríp niður í þann þátt í II. kafla frumvarpsins, um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum, og þar er lagt til, í b-lið 14. gr., að á eftir orðinu „sviði“ í 2. mgr. 3. gr. laganna komi: umhverfisverndar, skógræktar, lokunar framræsluskurða, smávirkjana, ferðaþjónustu.

Þarna held ég að við séum komin í annað ráðuneyti og út á allt annað svið. Þessir þættir eiga heima í umhverfis- og auðlindaráðuneyti að ég best veit, þeir voru það alla vega síðast í fyrradag þegar við vorum að fjalla um skógrækt og umhverfisvernd. Ég skil ekki alveg hvað er verið að fara þarna.

Einnig vil ég minnast á það að ég skil engan veginn að hér er gegnumgangandi, bæði hvað varðar búnaðarlögin og búvörulögin, verið að kippa út Bændasamtökum Íslands, ansi oft, og framkvæmdanefnd búvörusamninga er held ég bara algerlega slegin út af borðinu. Það skil ég ekki vegna þess að framkvæmdanefnd búvörusamninga er samstarfsvettvangur bænda og ríkisins til að framfylgja búvörusamningnum og kemur afurðaverði eða þess háttar ekkert við.

(Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég reikna með því að það verði einhver andsvör þannig að ég er tilbúinn að skella mér í þau.