149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:37]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get vissulega tekið undir með hv. þingmanni, auðvitað þarf að vera svigrúm til að hagræða. Það er nauðsynlegt í öllum atvinnugreinum og fyrirtækjum, til að standast samkeppni og vera samkeppnishæf til lengri tíma litið, að vera stöðugt að huga að hagræðingu en um leið vöruþróun og nýsköpun í framleiðslu sinni.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér í þessu er þegar við horfum á þróunina í alþjóðaviðskiptum, þar með talið með landbúnaðarvörur, þó svo vissulega hafi verið þar ákveðin, ja, ég myndi kalla það stöðnun í um tvo áratugi eða svo, þá er alltaf stöðugur og vaxandi þrýstingur á að opna meira á viðskipti með landbúnaðarafurðir milli landa. Við sjáum t.d. nýgerðan fríverslunarsamning Evrópusambandsins og Kanada þar sem verið var að opna talsvert á innflutning á landbúnaðarafurðum í báðar áttir.

Það sama á við í þeim fríverslunarsamningum sem Bandaríkin hafa verið að gera og töluverður þrýstingur var á um þetta sama þegar kom að svokölluðum TTIP-samningi, sem sagt fríverslunarsamningi milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, sem reyndar sigldi í strand. En það er alveg ljóst að þetta er það sem við megum vænta að koma muni í fríverslunarsamningum framtíðarinnar.

Er ekki einmitt nauðsynlegt fyrir innlendan landbúnað að búa sig undir, með þá t.d. auknu frelsi hér heima fyrir, harðnandi samkeppni á alþjóðavísu? Af því að það muni verða þrýstingur á okkur í gagnkvæmum fríverslunarsamningum okkar að opna meira á viðskipti með landbúnaðarafurðir?