149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:39]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Þorsteini Víglundssyni hvað þetta varðar. En ég vil líka ítreka að til að mæta þessari samkeppni sem hv. þingmaður boðar þurfum við líka að fá ákveðið frelsi til að hagræða innan geirans, nákvæmlega eins og við gerðum í mjólkuriðnaðinum, nákvæmlega eins. Þar er líka frelsi. Þar eru menn ekki bara læstir ofan í skúffu. Við verðum að hafa það í huga. Kúabændur eru þeir sem hafa afkomu í dag.

Hvað varðar kjötið þurfum við að fara mjög svipaða leið til að takast á við framtíðina. Við erum bara að reka fyrirtæki. Við þekkjum það nákvæmlega eins og í öðrum matvælaiðnaði á Íslandi — ef við horfum á sjávarútveginn: Hvað hefur verið gert þar? Þar hagræða menn. Menn eru alltaf að leita leiða til að gera hlutina á eins hagkvæman hátt og mögulegt er. Það er nú bara akkúrat það sem við viljum fá að gera, matvælaframleiðendur á Íslandi. Við viljum fá ákveðna umgjörð í starfsumhverfi okkar til að geta hagrætt og unnið þannig bæði fyrir hag neytenda og bænda.