149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu því að ég vil gjarnan svara henni. Stutta svarið er já. Hjá verðlagseftirliti ASÍ komu fram áhyggjur þess fyrir um þremur vikum eða mánuði, þ.e. verðlagsvakt þeirra telur að stærstu matvörukeðjur á Íslandi stundi það sem er kallað þögult verðsamráð. Það byggðist m.a. á því að hjá þeim tveimur verslunum sem lægstar voru í verði munaði yfirleitt einni krónu á þeim vörutegundum sem voru líklegar til að rata inn í verðlagskannanir. Tel ég að lífeyrissjóðafulltrúarnir stundi þetta samráð? Það hafa, hv. þingmaður, margir goldið varhuga við því hvað lífeyrissjóðirnir eru stórir eigendur, þeir áttu 50,1% í Högum síðast þegar ég vissi, þeir áttu 35% í Festi, meira núna en áður. Þeir áttu sem sagt ráðandi hlut.

Það sem menn hafa sagt að sé til að hafa áhyggjur af er að sjóðirnir hafa ekki notað þetta afl sitt til að eiga menn í stjórn og þeir hafa ekki sett sér almennilega eigandastefnu. Það birtist t.d. í því að þessi sömu fyrirtæki eru að borga ofurlaun, sem verkalýðsforystan er svo aftur á móti að gagnrýna. Menn standa þarna í vatninu í báðar lappir, finnst mér. Þannig að, já, þetta truflar verulega og ég held að við náum ekki árangri í verðlagningu á Íslandi, þ.e. á neytendamarkaði, fyrr en búið er að taka á þessu. Þessar verslunarkeðjur, báðar tvær, þær eru tvær stærstar, eiga líka heildsölueigandann. Þær eiga líka grænmetisinnflutningsfyrirtæki. Þær eiga líka kjötvinnslur. Þær eru sem sagt alltumlykjandi og geta í sjálfu sér ráðið því hvernig þær verðleggja matvöru. Jú, jú, við getum pantað okkur föt á netinu og allt það, en ef við ætlum að komast í lágt verð verðum við að synda til Færeyja.