149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:00]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér í raun og veru verð á matvöru t.d. í verslunum hér á landi í samanburði við verslanir erlendis. Þegar ég gerði í það minnsta sjálfur þann verðsamanburð tók ég eftir að það er ekki ýkja mikill verðmunur á þeirri innfluttu vöru t.d. sem mætti lýsa sem svo að sé í fullri virkri samkeppni. En það er töluverður verðmunur á landbúnaðarafurðum milli þessara landa, sér í lagi þegar við berum okkur saman við önnur Norðurlönd. Þá er ég ekki að bera okkur saman við risavaxin lönd heldur fyrst og fremst við nágranna okkar á hinum Norðurlöndunum sem búa við, getum við sagt, lítinn markað, lítinn landbúnað í alþjóðlegu samhengi, vissulega ríkisstyrktan, og stunda landbúnað líkt og við.

Það er hins vegar annað sem vakti athygli mína í máli hv. þingmanns og þar hygg ég að við séum alveg sammála. Það er lýsingin á þeirri verðlækkun sem varð til bænda á lambakjöti vegna birgðavanda eins og því var lýst hér fyrir rúmu ári. Ég tók, eins og hv. þingmaður, eftir því að þessi mikla verðlækkun til bænda skilaði sér ekki í verðlækkun til neytenda, þó að vissulega hafi verð á lambakjöti staðið nokkuð í stað undanfarin þrjú, fjögur ár eða svo. Það kom svo sannarlega ekki fram í svona skarpri verðlækkun eins og þarna var boðuð og framkvæmd til bænda. Er þetta ekki einmitt lýsandi dæmi um skort á samkeppni og markaðsráðandi stöðu afurðastöðvanna gagnvart bændum sjálfum og neytendum um leið? Væri ekki einmitt ráð að taka á þeim skorti á samkeppni og auka frelsi bænda sjálfra til að semja um verð, markaðssetja og jafnvel framleiða sínar vörur sjálfir? Þar reisum við hér sjálf með löggjöf frá Alþingi bændum verulegar skorður um það hvað sé heimilt að gera, t.d. í heimaslátrun og öðru slíku.