149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:04]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta hefur verið ákaflega skemmtileg umræða á marga lund og farið hefur verið um víðan völl og kannski minnst verið rætt um efni frumvarpsins, en engu að síður góð umræða. Ég á sjálfsagt eftir að falla í þá sömu gryfju að fara að ræða um ýmis atriði sem eru kannski ekki beinlínis í frumvarpinu.

Ég tók strax eftir því þegar ég hlýddi á umræðuna að mjög sterkar tilfinningar hrærast í brjóstum ræðumanna, hvort sem þeir eru sammála því sem fram kemur í frumvarpinu eða andsnúnir. Það setur svolítinn svip á þetta. Menn eru svolítið búnir að setja sig í stellingar þegar umræða af þessu tagi fer fram.

Það sem mig langar til að byrja á að gera að umtalsefni er hvernig við horfum til bænda, þ.e. starfsins að vera bóndi, ég ætti að orða það öðruvísi, ég ætti að segja til reksturs býlis. Í öðru orðinu horfum við til bænda eins og launþega, og við köllum bændastéttina, en auðvitað eru bændur mjög gott dæmi um atvinnurekendur. Þeir reka sín bú. Þeir eru með mikið umleikis sumir, aðrir minna. Það er eins og í öllum öðrum rekstri. Ég held að við ættum að velta því fyrir okkur að hætta, þegar rætt um bændur, að tala um þá í samhenginu að vera launþegi. Þetta eru atvinnurekendur sem stunda atvinnurekstur. Ég held að mjög gott sé að byrja þar.

Ég held að rétt sé líka að velta aðeins fyrir sér samtökum bænda, Bændasamtökunum. Ég held að ég taki ekki of stórt upp í mig þegar ég segi að það séu engir framleiðendur varnings eða seljendur þjónustu á Íslandi sem hafa með sér samtök sem hafa viðlíka stöðu og Bændasamtök Íslands að lögum. Ég held að það sé enginn hópur framleiðenda eða seljenda þjónustu sem gerir samninga í einu lagi við ríkið um afsetningu afurða sinna með svipuðum hætti og bændur. Þessi umgjörð sem er um rekstur bænda er því mjög sérstök.

Maður getur jafnvel gengið svo langt að spyrja: Er það eðlilegt að samtök á borð við Bændasamtökin geri samninga við ríkið? Það er svona grundvallarspurning. Við skulum taka eitthvert dæmi, ef framleiðendur á húsgögnum eða seljendur tölvuþjónustu byndust samtökum og fengju þá stöðu að þeir gætu afsett afurðir sínar með samningi við ríkið sem ein heild held ég að okkur litist ekki vel á það. Mér finnst ágætt að minnast á að það er mikil sérstaða að þessu leyti.

Ég veit það svo sem ekki með fullri vissu en ég er ekki viss um að það tíðkist í meiri hluta landa í heiminum að gera búvörusamninga við bændur. Ég efast um það. Ég kann að hafa rangt fyrir mér. Nú eru aðrir sem vita það betur. Ég trúi kannski að í Noregi sé svipað fyrirkomulag, en ég er ekki viss um að þetta sé hið endanlega eða hið algenga fyrirkomulag í samskiptum framleiðenda landbúnaðarafurða við ríkisvaldið.

Menn hafa nefnt byggðastefnu, að nauðsynlegt sé að halda byggð í landinu og það sé gert með því að styðja við bændur. Það er allt saman gott og vel. Ég held reyndar að það sé röng aðferð að beita samningum um verð á matvælum sem góða byggðastefnu. Ég held að það sé ekki góð aðferð. Þrátt fyrir að við höfum þó beitt þeirri aðferð um áratugaskeið liggur fyrir að bændum hefur fækkað mjög mikið á síðustu áratugum. Býlum hefur fækkað mjög mikið. Samkvæmt tölum sem ég fékk á bóndi.is, reyndar frá 2015, ég fann ekki í sviphendingu nýrri tölur, er talað um að 6.700 lögbýli séu á landinu, en það séu nákvæmlega 3.150 sem stundi framleiðslu á landbúnaðarafurðum.

Ég held að rétt sé að við viðurkennum að bændur eru atvinnurekendur og bændur eiga að vera frjálsir að því hvernig þeir haga markaðsmálum sínum. Þeir eiga ekki að vera nánast skyldugir til þess að vera innan þess kerfis sem við höfum búið til. Þeir eiga að vera sjálfráða um markaðsmál sín og sölu.

Það þýðir alls ekki, og er alls ekki lagt til í frumvarpinu, að leggja eigi niður Bændasamtökin eða að bændur geti ekki haft með sér samtök, það er allt í lagi. Aðrar atvinnugreinar hafa með sér samtök um hagsmuni sína og menn geta alveg stofnað sölusamlög um framleiðslu sína ef þeir telja það rétt.

Það hefur líka verið rætt talsvert um samkeppni og að íslenskur landbúnaður standi frammi fyrir mikilli samkeppni. Menn hafa nefnt tölur um stóra erlenda framleiðendur. Ég held að það sé alveg rétt að menn hafi í huga að allur atvinnurekstur á Íslandi á í harðri samkeppni við erlenda aðila og sumir þeirra eru engin smásmíði. Það eru engar takmarkanir eða nein vernd sem menn njóta í þeirri samkeppni af hálfu ríkisins. Verslunareigendur á Laugavegi hafa enga samninga við ríkið til að þeir geti afsett sína framleiðslu þegar Hennes & Mauritz opnar margar búðir á Íslandi. Það er býsna stór verslunarkeðja. Sama gildir um IKEA í rekstri húsgagnaverslunar. Okkur dettur það ekki í hug.

Talað er um að til að geta tekist á við samkeppnina þurfi stór fyrirtæki og að það þurfi Mjólkursamsöluna. Og að Mjólkursamsalan, sem hefur 95% markaðshlutdeild eða þar um bil, verði að geta verið stór og hún verði að vera undanþegin samkeppnislögum til að geta staðist samkeppnina og menn geti hagrætt. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Ég held að mjög eðlilegt sé að fyrirtæki sem hefur 95% markaðshlutdeild sé undir sömu lögmálum og önnur fyrirtæki í landinu hvað varðar samkeppni og samkeppniseftirlit.

Mér er minnisstætt þegar svokallaðir GATT-samningar voru gerðir og voru í deiglunni. Þá gerðu menn ráð fyrir, og það varð auðvitað að hluta, að innflutningur á landbúnaðarafurðum myndi aukast. Á þeim tíma, orðin 25 ár síðan eða svo, var það ein helsta krafan að landbúnaðurinn yrði að geta undirbúið sig undir þá samkeppni með því að geta haft stór og sterk fyrirtæki. Það var ein meginröksemdin fyrir því að m.a. nýja Mjólkursamsalan var undanþegin samkeppnislögum til að hún gæti verið stór og sterk og mætt samkeppninni. Nú er hún búin að hafa 20 ár til að mæta þeirri samkeppni og enn þarf hún að vera stór og sterk til að geta mætt samkeppninni. Það er því býsna langur tími sem menn þurfa að njóta sérstöðunnar til að geta mætt samkeppninni.

Ég man líka vegna fyrri starfa minna að á þeim tíma varð uppi stórmál þegar menn uppgötvuðu að fara átti að flytja inn rjómaís frá útlöndum án þess að borga tolla. Við lá að heimsbrestur yrði og framleiðendur á slíkum varningi kvörtuðu sáran yfir því að nú yrði þetta til þess að Íslendingar hættu að kaupa íslenskan ís og færu að borða útlendan ís. Hver hefur raunin orðið? Jú, hún hefur auðvitað orðið sú að hér er, held ég, framleiddur ís af fleiri aðilum en nokkru sinni fyrr, íslenskum framleiðendum, en fínasti og besti ís. Og það er líka ís frá útlöndum. En ég held og ég veit að markaðshlutdeild íslenska hlutans af ísnum er sterk og góð. Við borðum íslenskan ís. Þetta varð allt í lagi, en það var þannig að menn bjuggust við því að þessi framleiðsla myndi gjörsamlega leggjast af ef farið yrði út í innflutning og þetta frelsi.

Ég held að deila megi alveg um það hvort þetta frelsi landbúnaðarins til að haga málum eins og þeim er hagað núna, t.d. í mjólkurframleiðslunni — menn hafa talað mjög um að þar sé mikil hagræðing og það hafi skilað miklum ávinningi til neytenda. Ég kann ekki að fara með þær tölur, ég kann hins vegar að fara með tölur úr könnun Alþýðusambandsins sem var gerð fyrr á þessu ári þar sem var verið að skoða hækkanir á matvælaverði. Það er sérstaklega tekið fram í forsendum eða útskýringum þeirrar könnunar að það veki sérstaka athygli Alþýðusambandsins í könnuninni að á sama tíma og matvælaverð almennt fari lækkandi þá hækki verð á mjólkurafurðum og það hækkaði um 7,5% á þeim tíma sem var til skoðunar. Ég held því að þetta sé ekki alveg einhlítt.

Ég vil ítreka að atvinnurekendurnir, bændurnir, eru fullfærir um að standa á eigin fótum. Og þegar ég segi á eigin fótum á ég ekki við, af því að í umræðunni áðan töluðu menn mikið um hvort menn ættu virkilega ekki að fá styrki og hvort tollvernd ætti að svipta í burtu í einu vetfangi, ég er ekki að tala um það. Við hjá Viðreisn erum ekki að tala um að það sé í þeim skilningi óheftur innflutningur, þ.e. að ríkið, við sameiginlega, vilji eða ætli ekki að styðja við rekstur bænda. Ég held að ríkur vilji sé til þess í öllu samfélaginu að styðja við rekstur bænda á sínum býlum. Það verður gert áfram. En ég held að við getum alveg gert það þannig að það komi bændum sjálfum betur, það komi neytendum betur og samfélaginu öllu. Það er nú einu sinni þannig að samkeppnin, hvað sem menn vilja um hana segja, knýr áfram breytingar og hún knýr áfram nýsköpun. Það mun gerast hjá bændum eins og öðrum.

Við, a.m.k. þeir sem eru á mínum aldri og eldri og jafnvel kannski einhverjir aðeins yngri, getum alveg rifjað upp alla umræðuna sem varð um aðild Íslands að EFTA á sínum tíma og örlög iðnaðarins í því samhengi. Iðnaðurinn tók stakkaskiptum við aðildina að EFTA. Það voru mjög erfið ár. Það var margt sem lagðist af, en það var líka margt sem kom í staðinn. Ég held að ef við hefðum haldið okkur við að vernda íslenskan iðnað, eins og var gert fyrir fríverslunarsamninginn við Efnahagsbandalagið á sínum tíma, væri sá iðnaður ekki svipur hjá sjón, væri aftarlega á merinni, og við værum ekkert sérlega stolt af þeim iðnaði.