149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum að samtakamáttur í landinu hefur kannski komið þessari þjóð þangað sem hún er, að geta byggt á hagræðingu. Við erum auðvitað sáralítill markaður. Varðandi matvælaöryggi er það brýnt fyrir litla þjóð í Norðurhöfum að búa við það. Þar eru bændur lykilatriði. Líka hvað varðar umhverfismál, vistspor, kolefnisspor. Það er mikilvægt að við getum framleitt sem mest af landbúnaðarafurðum í okkar eigin landi og séum ekki að flytja þær hingað, með tilheyrandi vistsporum, um öll heimsins höf.

Hefur Viðreisn engar áhyggjur af því ef afleiðingin verður sú, sem ég tel verða ef frumvarpið verður samþykkt, að bændum snarfækki í landinu með tilheyrandi afleiðingum; innflutningi og óöryggi í matvælaframleiðslu? Hvaða áhrif hefur þetta í þeim miklu umræðum sem við eigum um umhverfismál, loftslagsmál og afleiðingar af vöruflutningi heimshorna á milli; vöru sem við gætum framleitt hér heima í dag?