149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:32]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það hefur vissulega orðið framþróun í íslenskum búskap, eins og ég fór yfir áðan í andsvari við annan þingmann. Bændur finna sífellt fjölbreyttari leiðir til að koma afurðum sínum á framfæri. Menn vinna afurðir heima í auknum mæli og selja beint frá býli og það er mjög jákvætt. En ég velti fyrir mér þegar hv. þingmaður ber saman íslenskan landbúnað og verslun með glingur og híalín, er hægt að bera það saman við viðbrögðin þegar eitthvað kemur upp á? Íslenskur landbúnaður býr yfir mikilli sérstöðu hvað varðar hreinleika og gæði. Er það ekki þess virði að við stöndum vörð um það og verjum það sem við höfum hér og förum að ráðum fræðimanna varðandi að fá ekki yfir okkur alls kyns óværu? En við höfum fulla trú á íslenskum bændum af því að við getum stolt boðið fram vörur okkar.