149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:36]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ágæt spurning. Það vill svo til að ég starfaði við það sem unglingur með föður mínum að búa til stóla og Jenka-sófa í tengslum við stóra húsgagnaverksmiðju á Akureyri sem hét Valbjörk. Mér datt aldrei í hug að leggja mér þetta til munns, en það má sjálfsagt gera.

En, nei, ég legg það í sjálfu sér ekki að jöfnu og mér finnst þetta frekar ómerkilegur útúrsnúningur. Það sem ég var að segja er að ég er ekki þeirrar skoðunar að rekstur bænda sé í grundvallaratriðum það ólíkur öðrum rekstri að um hann þurfi að gilda það kerfi sem við höfum komið upp.

Varðandi kjör bænda var ágætt að rifja upp hvernig þetta var með Stéttarsamband bænda og starfskjör vegna þess að það er akkúrat þetta sem ég er að reyna að segja. Við eigum að hætta að (Forseti hringir.) líta á bændur sem stétt. Við eigum að líta á bændur sem atvinnurekendur. Það eigum við að gera og ég er viss um að þeir vilja það sjálfir.