149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða í kvöld. Frumvarpið sem við ræðum ber ekki vott um að flutningsmenn þess hafi hugsað mikið um starfsumhverfi íslensks landbúnaðar, þar með talin sú samkeppni og þróun sem á sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum.

Þá er ljóst að frumvarpinu er ætlað að gæta sérhagsmuna lítils, frægs en fjárhagslega sterks hóps innflytjenda matvæla. Frumvarpið er sérhagsmunagæslufrumvarp vegna þess að Viðreisn, sem ber höfuðábyrgð á því, er sérhagsmunagæsluflokkur sem gætir hagsmuna kaupmanna og innflytjenda. Höfum það í huga við alla umræðuna, virðulegi forseti.

Með frumvarpinu er tekinn af allur vafi um tilgang Viðreisnar, sem er að fylgjendur þess eða þeir sem leggja það fram verji ákveðna hagsmuni. Það er öllum ljóst. Í frétt Fréttablaðsins á dögunum var viðtal við einn flutningsmanna málsins og þar kom fram, með leyfi forseta:

„Markmið flutningsmanna er að auka frelsi og sjálfræði framleiðanda til markaðssetningar á afurðum sínum af innlendum og erlendum mörkuðum.“

Ég veit ekki til þess að nokkur höft séu á því hvernig bændur eða framleiðendur, eða hvað sem menn kalla það, markaðssetja vörur sínar. Ef einhverjar hömlur eru á því óska ég eftir því að menn komi í ræðustól og útskýri fyrir okkur hvernig þær hömlur eru og hvar þær eru. Ég veit ekki betur en að fullt frelsi sé hjá hverjum þeim sem framleiðir landbúnaðarvörur til að markaðssetja og selja þær.

Landssamband kúabænda er sama sinnis og hefur sagt að það kannist ekki við skort á sjálfræði eða sjálfstæði til að markaðssetja vörur. Það eru nokkrir bændur og framleiðendur mjólkurvara í dag, ef við höldum okkur mjólkina. Má þar nefna Bio-bú og lífræna mjólkurframleiðendur. Þá eru einnig til öflug fyrirtæki sem ég held að muni vaxa og dafna gríðarlega á næstu árum. Ég nefni Örnu sem dæmi, sem er frábært fyrirtæki, svo að ég taki það fram, en það hefur innleitt nýjungar á markaði sem var full þörf fyrir.

Síðan ætla að nefna annað fyrirtæki sem er ekkert smáfyrirtæki á íslenskum markaði heldur risainnflytjandi á vörum og það er Ölgerðin. Ölgerðin hefur stofnað framleiðanda sem heitir Býlið okkar. Reyndar er Ölgerðin vitanlega líka að framleiða og á fullt af litlum brugghúsum og er mjög góð í því. Við erum bæði með mjög litla og gríðarlega stóra og sterka framleiðendur á þessum markaði í dag og þá er ég ekki að tala um Mjólkursamsöluna.

Markaðsráðandi aðili skal safna mjólk, stendur í frumvarpinu, og ber þá væntanlega kostnaðinn. Ég spurði í andsvari við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson hvernig það væri hugsað. Auðhumla hf. sér um að safna saman mjólkinni. Er það þannig samkvæmt frumvarpinu, af því að það kemur hvergi fram og þess vegna hljótum við að spyrja, að þetta fyrirtæki skal safna saman allri mjólk og deila henni svo út samkvæmt ákveðnum reglum, sem er minnst á í frumvarpinu, en má ekki samt vinna með þeim sem framleiða mjólkina að hagræðingu eða öðru slíku? Hver er hugsunin með því?

Ef þetta snýst ekki um frelsi framleiðanda til að framleiða og markaðssetja vörur sínar innan lands heldur erlendis langar mig að benda flutningsmönnum frumvarpsins á að viðskipti með landbúnaðarvörur eru ekki eins og viðskipti með aðrar vörur í heiminum. Ef þeir geta sýnt mér fram á að svo sé bið ég þá um að gera það.

Það er nefnilega þannig að t.d. 93% af þeirri mjólk sem framleidd er fara ekki yfir landamæri. Mjólkin er ekki flutt á milli landa. Þetta er heimild frá FAO, þannig að því sé örugglega komið til skila.

Alþjóðaviðskiptastofnunin segir, af því að á frumvarpinu eru helstu klappstýrur ESB-umsóknarinnar, varðandi markaðsaðganginn í Evrópusambandið, sem sagt í skoðun 2017, að landbúnaður verði áfram mjög verndaður. ESB notar töluvert af viðskiptavernd til að vernda landbúnað sinn. ESB er eitt af viðskiptasvæðum Íslands og meðan Bretar eru þar inni er það vitanlega mjög mikilvægt viðskiptaland fyrir fisk og landbúnaðarafurðir. Vonandi getum við samt, fari Bretar út, áfram sótt á þann markað.

Menn segja að við eigum ekki að hafa neina tolla á landbúnaðarvörum. Ætlast menn þá til þess að við afléttum einhliða þeim litlu tollum sem eftir eru á landbúnaðarvörum? Evrópusambandið er með fulla tolla á fullt af afurðum sem Ísland framleiðir og flytur út. Í famhjáhlaupi má nefna að hér eru tveir einstaklingar, frábærir frumkvöðlar, sem framleiða ostasnakk úr ostum. Þeir framleiða bæði á Íslandi og í Svíþjóð en þeir framleiða í Svíþjóð vegna þess að þeir fá ekki að flytja vöruna út tollfrjálst inn á markaði Evrópusambandsins. Á sama tíma segja menn í þessum ræðustól: Við eigum að aflétta öllum tollum.

Í Fréttablaðinu segir einn flutningsmanna, með leyfi forseta:

„Álit Samkeppniseftirlitsins eru ekki einhver konfektkassi fyrir stjórnvöld að velja úr.“

Það er alveg rétt að menn velja ekkert úr álitum Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitinu ber að fara að lögum eins og öllum öðrum. Ég ítreka að ég tel að Samkeppniseftirlitið virði ekki lög og vilja Alþingis þegar kemur að landbúnaðinum. Það er ótrúlegt að horfa upp á hvernig það stjórnvald fer t.d. gegn mjólkurframleiðslu í landinu. Það er skýr vilji Alþingis, skýri vilji löggjafans, að ákveðnar undanþágur gildi um þá starfsemi.

Hv. þm. Þórarinn Pétursson nefndi að hið sama ætti að gilda um kjötframleiðslu í landinu og ég er honum hjartanlega sammála, enda lagði ég fram frumvarp á 147. þingi, að ég held frekar en 146., þar sem 2. gr. þess frumvarps fjallaði um að aðilar í kjötframleiðslu gætu sameinast, gætu átt samstarf sín á milli til þess að ná fram ákveðinni hagræðingu, til að ná fram þeirri hagræðingu sem hefur átt sér stað í mjólkuriðnaði í landinu og gert það að verkum að við erum enn þá með sterkan mjólkuriðnað.

Virðulegur forseti. Ég hyggst leggja fram það frumvarp á ný, lítið breytt, þar sem ég tek af allan vafa um að sama eða svipað fyrirkomulag skuli gilda um kjötiðnaðinn.

Svo eru það tillögur Samkeppniseftirlitsins, svo að við höldum áfram með þá stofnun. Ég verð að segja að ég ber ákveðna virðingu fyrir Samkeppniseftirlitinu, nema þegar kemur að þráhyggjunni varðandi mjólkurframleiðslu í landinu. Það er hreinlega óeðlilegt hvernig þar er staðið að málum.

En tillögur Samkeppniseftirlitsins hafa verið róttækar og stundum hreinlega fjandsamlegar, liggur mér við að segja. Þær hafa verið mjög róttækar þegar kemur að landbúnaðinum og hagsmunum lands og þjóðar. Meðal annars hefur eftirlitið lagt til að allir tollar af mjólkurdufti verði felldir niður. Ég veit ekki hvort allir í salnum eða þeir sem eru að hlusta, sem eru örugglega ekki mjög margir, átti sig á því að hægt er að framleiða nánast allt úr mjólkurdufti, að hægt er að framleiða nánast allar mjólkurafurðir, ef ekki allar, úr mjólkurdufti. En hvað leggur Samkeppniseftirlitið til, og væntanlega flutningsmenn frumvarpsins og þeir sem tala fyrir tollfrelsi? Þeir leggja til að íslenskur mjólkuriðnaður sem þarf sirka 90 kr. á lítrann þegar kemur að mjólkurdufti í framleiðslu keppi við verksmiðjubúin sem þurfa um 50 kr.?

Er það umhverfið sem flutningsmenn frumvarpsins leggja upp með? Er það það sem þeir meina, að íslenskur landbúnaður geti alveg tekist á við samkeppni og geti staðið af sér innflutning eða geti staðið af sér breytingar? Er það það sem menn eru að velta fyrir sér, að keppa við vöru sem getur munað svona miklu á, nærri helmingi?

Ég tel að vilji Alþingis varðandi landbúnaðinn sé alveg skýr. Alþingi hefur fram að þessu, og ég vona að engin breyting verði þar á, viljað hafa öflugan landbúnað á Íslandi og tryggja ákveðið fæðuöryggi — ég ætla að nota það orð þótt það sé ekki vinsælt, sem ég skil ekki því að það er mjög fallegt. Varðandi það sem við neytum eða borðum í dag framleiðum við um 50% af þeirri orkuþörf sem íslenska þjóðin þarf á að halda. Við megum ekki hverfa frá því. Þess vegna tek ég ofan fyrir þeim þingmönnum sem áttuðu sig á mikilvægi þess hér um árið að undanskilja mjólkurframleiðslu frá þeim hluta samkeppnislaga.

Breytingin hefur verið mikil undanfarin ár. Í dag eru 570 kúabú á Íslandi. Þetta eru fjölskyldubú en ekki verksmiðjubúin sem við erum að tala um að við þurfum að keppa við. Kúabúum hefur fækkað úr um 1.558 í 572 og það í raun frá því að sameiningin og samstarf hófst. — Nei, þetta er rangt hjá mér. Hv. þingmaður hristir hausinn og ég þakka honum fyrir það. Þetta er frá árinu 1990, ég gleymdi ártalinu. En það er engu að síður gríðarleg hagræðing eða fækkun sem hefur orðið frá 1990, úr 1.558 búum í 572.

Það hefur líka orðið mikil innviðahagræðing. Í dag framleiðum við úr 155 milljónum lítra af mjólk í stað 107 milljóna lítra árið 1990 og það þrátt fyrir mikla fækkun. Leyfilegt er fyrir alla aðila að safna mjólk í dag og framleiða úr henni. Það er mikil nýsköpun í þeim iðnaði, sem betur fer. Það eru bæði stórir og smáir sem sinna því. Ég segi aftur: Það er af því að þetta er góð grein sem stendur ágætlega, vegna þess að menn hafa borið gæfu til að geta unnið saman.

Ég ætla að nefna eitt nýtt nýsköpunarfyrirtæki sem heitir Heilsuprótein. Það er í eigu tveggja hinna svokölluðu stóru aðila, sem eru pínulitlir í samanburði við framleiðsluaðila í Evrópu. Heilsuprótein framleiðir prótein úr mysu sem annars hefði farið í sjóinn eða þurft að farga. Hugsið ykkur umhverfissparnaðinn sem verður af því. En ég skil frumvarpið þannig að aðilarnir sem eiga fyrirtækið megi ekki starfa saman. Þeir mega ekki vinna að því umhverfismáli sem þarna er eða skapa þau verðmæti sem verða til úr afgangsafurð sem hefði annars farið í sjóinn eða þurft að farga á anna hátt. Eins og ég skil það bannar frumvarpið slíkt samstarf eða samvinnu.

Það er mjög að freistandi velta fyrir sér ef frumvarpinu yrði breytt í þá veru að tekið yrði skýrt fram að fyrirtækið mætti starfa í þeim geira hvort einhverjar líkur væru á því að Samkeppniseftirlitið myndi leyfa það. Svarið er nei.

Þá veltir maður fyrir sér, og ég hef ekki fengið svar við því í ræðustól: Hvaða þjóð eða ríkjasamband ver ekki landbúnað sinn með einhverjum hætti, með tollum, gjöldum eða höftum eða einhvers konar styrkjum? Nýja-Sjáland var nefnt í dag, sem er versta dæmi sem hægt er að finna. Þar fara menn í fangelsi ef þeir taka lambalæri eða bara einhvern mat með sér inn í landið. Þeir leyfa ekki innflutning. Þetta er galið dæmi.

Í salnum eru ýmsir flokkar sem líta til Kanada og telja að þar sé við völd sósíaldemókrati, hann er alla vega miðjumaður, frelsismaður mikill. Hann sagði hins vegar ekki alls fyrir löngu að það væri ekkert til sem héti frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur.

Það er engin þjóð sem ekki ver landbúnað sinn og í því getur falist að hafa tolla að styrkja hann eða skapa honum umhverfi þar sem hann getur keppt við landbúnað í öðrum löndum.

Virðulegi forseti. Í dag fór fram matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands. Þar kom fram hjá einum ræðumanna, prófessor við Háskóla Íslands, að lífrænn og vistvænn landbúnaður væri framtíðin, að matur úr nærumhverfi væri lausnin og að Ísland ætti að stefna að því að vera sjálfbært um matvæli.

Ég held að hollt væri fyrir flutningsmenn frumvarpsins að reyna að verða sér úti um glærur og myndbönd frá þeim fundi og átta sig á því að þarna var saman kominn hópur fólks sem hefur fulla trú á að íslenskur landbúnaður geti vaxið og dafnað en að hann þurfi að sjálfsögðu ákveðið umhverfi og aðstæður til þess. Það gerum við ekki með því að brjóta hann niður, eins og þetta frumvarp gengur út á, og opna fyrir óheftan innflutning á landbúnaðarvörum, sem hefur líka verið lagt til og talað um.

Virðulegi forseti. Meginefni frumvarpsins leit dagsins ljós í mars 2017 þegar þáverandi ráðherra birti drög að frumvarpinu. Þá kom m.a. fram í yfirlýsingu frá Landssambandi kúabænda að þær breytingar sem væru boðaðar væru óljósar, illa ígrundaðar og afleiðingar þeirra óljósar. Undir það má taka, þetta er nákvæmlega það sem stendur í frumvarpinu enn þann dag í dag. Þetta er illa ígrundað. Ekki er reynt að leggja mat á afleiðingar frumvarpsins, það er ekki einn stafur um hvað það gæti þýtt, ekki eitt orð. Við hljótum því að velta fyrir okkur hvort flutningsmenn frumvarpsins séu virkilega að leggja það fram til að (Forseti hringir.) skapa landbúnaðinum betra umhverfið.

Ég held, (Forseti hringir.) og ítreka það sem ég sagði í inngangi ræðunnar, að þetta frumvarp sé lagt fram af gæslumönnum verslunar, heildsala og innflutningsaðila á Íslandi.