149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:56]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta frumvarp er lagt fram með sérhagsmuni í huga, sérhagsmuni íslenskra neytenda. (Gripið fram í.) Það eru sérhagsmunirnir sem ég hef verið að berjast fyrir.

Það sem er aðdáunarvert að hlusta á hjá málsvörum landbúnaðarins hér — helstu varnarmúrum landbúnaðarins ef ég mætti orða það þannig — er að þeir hinir sömu hafa enga trú á íslenskum landbúnaði, enga trú á því að íslenskur landbúnaður geti staðist samkeppni minnsta snúning, að hann myndi leggjast af upp til hópa ef opnað væri fyrir hinar minnstu glufur.

Hér er ekki verið að tala um að opna fyrir neinn innflutning, breyta neinu í styrkja- eða verndarumhverfi landbúnaðarins, heldur fyrst og fremst að reyna að opna á innlenda samkeppni hér heima fyrir og að greinin falli undir samkeppnislög. Það er nú ekki mjög flókið. Samkeppnislög banna ekki hagræðingu. Það hefur orðið hagræðing í öllu atvinnulífi hér á landi, markviss, stöðug, áframhaldandi, undir gildi samkeppnislaga. Sú þróun mun halda áfram.

Sú þróun getur hæglega átt sér stað, hvort sem er í kjötframleiðslu hér á landi eða mjólkurframleiðslu, áfram undir hatti samkeppnislaga. Það er engin þörf á því að undanskilja atvinnugreinar samkeppnislögum til að tryggja að hagkvæmni, hagræðing og framþróun geti átt sér stað. Þvert á móti. Það er einmitt það sem samkeppnislögin gera sérstaklega, að verja nýja sprota í greinunum fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það er nota bene misnotkun á markaðsráðandi stöðu, ekki að sú markaðsráðandi staða sé fyrir hendi. Það er ekki ólöglegt samkvæmt samkeppnislögum og ekki skylda að brjóta slík fyrirtæki upp.

Það er hins vegar áhugavert að velta fyrir sér, af því að það er mikill ótti við að afnema þessa undanþágu, að það fer eiginlega tvennum sögum af því í málflutningi landbúnaðarins, m.a. Mjólkursamsölunnar, hvort landbúnaður, og mjólkurframleiðsla sér í lagi, sé undanþeginn samkeppnislögum eða ekki. Mér þætti ágætt að heyra (Forseti hringir.) svar hv. þingmanns við því hvort greinin sé undanþegin samkeppnislögum eða ekki. Í máli hv. þingmanns mátti skilja svo að þetta væru verulegar undanþágur og myndi ríða greininni að fullu ef þær undanþágur yrðu afnumdar.