149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[22:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður þekkir ekki hversu miklu það hefur skipt landbúnaðinn og neytendur að þessi heimild sé til staðar þurfum við einfaldlega að upplýsa hann um það. Þá gerum við það bara í atvinnuveganefnd, fáum upplýsingar um það vegna þess að það liggur fyrir, að sjálfsögðu.

Mig langar líka að segja við hv. þingmann, úr því að hann talar um neytendur: Íslenskir neytendur, og neytendur almennt að sjálfsögðu, vilja vissulega hafa ákveðinn aðgang að matvælum á sanngjörnu verði. Hv. þingmaður hefur fengið alls konar viðbrögð varðandi fullyrðingar um matvælaverð á Íslandi, t.d. frá Bændasamtökum Íslands, að sjálfsögðu fer slíkt eftir því hvaða mælikvarða verið er að nota.

Ég hlakka til þess að frumvarpið fari til atvinnuveganefndar og fái þar umfjöllun. Við skulum segja að menn komi til fundar við nefndina og fari yfir þær fullyrðingar sem hér hafa komið fram, fullyrðingar hv. þingmanns og fullyrðingar þess sem hér stendur. Svo berum við saman og sjáum hvort við getum á endanum verið sammála um að til þess að eiga öflugan landbúnað á Íslandi þurfum við að leyfa ákveðna samvinnu og við þurfum líka að vinna saman að því.