149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[22:12]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spyr hvort þetta sé hálfgert ígildi skylduaðildar. Ég tel svo ekki vera. Það var mjög breytilegt milli hagsmunasamtakanna hversu góðar heimtur voru eftir að við breyttum félagskerfinu. Við skulum hafa það á hreinu. Heimtur t.d. meðal sauðfjárbænda, sem eru aðilar að Landssamtökum sauðfjárbænda, eftir að við breyttum félagskerfinu eru feikigóðar. Þær eru vissulega lakari hjá Landssambandi kúabænda og væntanlega spilar þar inn í hvernig menn innheimta félagsgjöld og þess háttar. En ég vil líka benda á að það er ekki kominn mælikvarði á þetta því að það er einungis að verða á annað ár frá því að við breyttum félagskerfinu. Það er líka þannig að þeir aðilar sem standa utan við njóta góðs af þeirri hagsmunagæslu sem unnin er á vegum Bændasamtakanna. Vissulega standa Bændasamtökin í samningum við hið opinbera varðandi þann stuðning sem um er rætt hér, en ég ítreka að þau koma ekki nálægt því afurðaverði sem einnig hefur verið mikið til umræðu hérna.

Ég tel að heilt yfir sé það þannig að þeir bændur sem standa utan við njóti góðs af samtökunum frekar en hitt. Síðan átta ég mig engan veginn á því hvernig í ósköpunum hver og einn á síðan að fara að semja við hið opinbera.