149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[22:15]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég er nokkuð sannfærður um að bændur munu finna út úr því eins og öðru hvernig þeir eiga að standa að samningum við hið opinbera, hvort sem það er gert innan heildarsamtaka bænda eða sjálfstætt eða með öðrum hætti. Það er reyndar eins og með allan annan atvinnurekstur í landinu að samskipti fyrirtækja eða atvinnurekenda við stjórnvöld eru með ýmsum hætti, menn koma sameiginlega að alls kyns samkomulagi við stjórnvöld og svo jafnvel hver í sínu lagi líka og ráða nokkuð vandræðalítið við það, held ég.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni hættuna á því að væri þessi undanþága frá samkeppnislögum afnumin myndi sjálfkrafa fylgja því uppskipting á Mjólkursamsölunni í því formi sem hún er rekin í dag. Það er vissulega alveg rétt að í samkeppnislögum í dag er heimild til slíkrar uppskiptingar. Henni hefur aldrei verið beitt. Henni yrði aldrei beitt nema að undangengnum einhverjum, getum við sagt, verulega alvarlegum aðfinnslum um brotlega starfsemi af hálfu viðkomandi fyrirtækja gagnvart samkeppnislögum. Það væri einhvers konar neyðarráð samkeppnisyfirvalda og hefur ekki komið til þess nokkurn tímann hér á landi í það minnsta að slíkri heimild hafi verið beitt.

Það sem er auðvitað áhugavert, og væri áhugavert að heyra álit hv. þingmanns á því, er hvort ekki væri rétt að ljúka endanlegum aðskilnaði milli söfnunar og dreifingar mjólkur og svo aftur úrvinnslu og sölu á smásölustigi og setja jafnvel um það sjálfstæða löggjöf og reglur um hvernig staðið skuli að dreifingu, uppfylla söfnunarskylduna o.s.frv. og um leið viðskipti við alla aðila sem kjósa að framleiða vörur úr mjólk. Við eigum þetta líkan til, t.d. hjá Landsneti í (Forseti hringir.) dreifingu raforku. Það má velta fyrir sér hvort ekki væri allt eins hægt að gera slíkt hið sama með söfnun og dreifingu á mjólk.