149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[22:17]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnir hv. þm. Þorsteins Víglundssonar. Það er alveg rétt, ég held að við bændur eigum það í sögubókum hvernig þetta var áður en samþjöppunin varð á Mjólkursamsölunni sjálfri þegar við vorum með litlar afurðastöðvar vítt og breitt um landið og vorum síðan með sérstakt sölukerfi sem hét meira að segja Mjólkursamsalan á þeim tíma. Við getum farið aftur til fortíðar í þeim efnum og horft til þess hverju það skilaði okkur. En ég held að það hafi komið ágætlega fram í ræðum hér fyrr í kvöld að það var ekki að ástæðulausu sem farið var í þessar aðgerðir varðandi samþjöppun í mjólkuriðnaði. Það var verið að hagræða í rekstri fyrst og fremst til að neytendur fengju sína vöru á góðu verði og bændur fengju betra verð. Það var lykilatriði. Ég tel að þeir sem starfa við mjólkurframleiðslu í dag vilji ekki fara til baka í þeim efnum, frekar vilji menn ná fram enn meiri hagræðingu til þess að neytandinn geti notið þess.

Síðan var verulega áhugavert að heyra að væntanlega væri þetta bara allt í lagi og samkeppnisyfirvöld myndu bara láta okkur í friði. Ég er verulega ánægður með það [Hlátur í þingsal.] svar. En ef svo verður ekki verður væntanlega haft samband við hv. þingmann. Vonandi kemur aldrei til þess að á þetta reyni, en þetta höfum við sem störfum í kjötiðnaði hræðst verulega hingað til og höfum fengið ordrur um hitt og þetta varðandi ýmis mál sem við höfum verið að velta fyrir okkur. (Forseti hringir.) Þar á ég t.d. við þegar við óskuðum eftir því að eiga samstarf um útflutning og mega vinna að markaðssetningu erlendis saman.