149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[22:20]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, en þær breytingar fjalla um afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. Flutningsmenn ásamt mér eru gjörvallur Flokkur fólksins, þ.e. Guðmundur Ingi Kristinsson, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Frá Pírötum eru meðflutningsmenn okkar Helgi Hrafn Gunnarsson og Halldóra Mogensen og Miðflokkurinn styður okkur einnig með fulltrúum sínum, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Sigurði Páli Jónssyni og Birgi Þórarinssyni. Það er skemmst frá því að segja að þetta er í annað sinn sem Flokkur fólksins flytur þetta frumvarp. Þetta er fyrsta frumvarpið sem við fluttum sem þingflokkur í desember á síðasta ári.

Ég ætla að lesa fyrir ykkur greinargerðina með frumvarpinu áður en lengra er haldið. Málið hlaut ekki brautargengi fyrir tæpu ári og er nú endurflutt óbreytt.

„Í 31. gr. laga nr. 96/2017 er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna skv. 23. gr. laga um almannatryggingar. Um er að ræða sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 25.000 kr. á mánuði. Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var m.a. gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Þar áður hafði frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum verið 109.000 kr. Eftir samþykkt laganna kom fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema skerðingar á atvinnutekjur eldri borgara.

Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember 2017. Þar kemur fram að afnám skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.

Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna sbr. 23. gr. laga um almannatryggingar.“

Þær breytingar sem við, Flokkur fólksins og meðflutningsmenn, viljum gera eru þessar:

„Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skulu atvinnutekjur ellilífeyrisþega ekki skerða ellilífeyri.“

Og 2. gr. frumvarpsins okkar hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019 og koma til framkvæmda 1. febrúar 2019.“

Það er í raun athyglinnar virði að hafa verið hér í kvöld, síðan um sjö, og virkilega hlustað á hagsmunaaðila verja sína eigin atvinnugrein. Í þrjá klukkutíma rúma höfum við hlustað á þá tala um búvörulög. Nú erum við að tala um fólk. Við erum að tala um þjóðfélagshóp, eldri borgara. Hvað skyldu margir verja hagsmuni þeirra hér í kvöld? Hvað skyldu margir vera á mælendaskrá í kvöld til að tala því máli sem Flokkur fólksins flytur nú í annað sinn? Ég bíð spennt.

Skýrslan sem dr. Haukur Arnþórsson gerði, sem ég áður vísaði til, fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík á síðasta ári er líka hóflega áætluð, eins og hann segir sjálfur, allt sem segir þar í tölum er hóflega áætlað, þar á meðal sú skerðing sem ríkissjóður hugsanlega yrði fyrir ef allar skerðingar á launatekjur eldri borgara yrðu afnumdar. Sú skerðing skilar sér verulega til baka í skattgreiðslum, útsvarstekjum sveitarfélaga, óbeinum sköttum, betri lýðheilsu svo að ekki sé minnst á betra líf fyrir þá eldri borgara sem eiga þess kost að halda áfram að vinna. Maður spyr sig, virðulegi forseti: Hversu margir eldri borgarar eru það sem á þessum seinni tíma ævinnar eru tilbúnir og hafa orku og getu til að halda áfram að vinna? Eru þeir það margir að við getum ekki tekið utan um þá þegar við vitum að stór hluti þeirra er fastur í fátæktargildru? Við skulum athuga það. Hæstv. fjármálaráðherra — ég vildi gjarnan að hann væri staddur hér í kvöld svo að ég þyrfti ekki að vera að tala um hann fjarstaddan — kom upp í andsvör við mig þegar ég var að tala um þetta í fyrra og dæmið sem hann tók var af 900.000 kr. manni í Garðabæ, forstjóra eða framkvæmdastjóra sem var með 900.000 kr. í mánaðarlaun, hvort við vildum virkilega hafa það svo að sá maður myndi ekki skerðast vegna launatekna. Hæstv. fjármálaráðherra gleymdi öllum hinum liðunum í lögunum þar sem segir að lífeyrisréttur og eignarskattar og allir aðrir skattar skerði það sem kemur frá almannatryggingum. Við erum einungis að tala um launatekjur en ekki hinn liðinn. Við erum ekki að tala um þá sem þegar hafa búið sér til öryggi á efri árum. Við erum að tala um hina, virðulegi forseti.

Ég átta mig illa á því hvers vegna það er ekki látið vera hafið yfir allan vafa að það muni ekki kosta ríkissjóð krónu að koma til móts við þá eldri borgara sem virkilega hafa heilsu og getu og vilja til að vinna en sjá enga ástæðu til þess. Hið svokallaða frítekjumark, sem ég myndi frekar kjósa að kalla skerðingarmörk á launatekjur, er 100.000 kr. á mánuði. Hvað ætli kosti að koma sér úr og í vinnu? Hvað ætli verði eftir þegar búið er að taka skatta af þessum 100.000 kr? Það er það lítið að það er nánast ekki neitt. Það tekur því ekki að fara út að vinna. Það tekur því ekki. Þá er bara betra að vera heima og einangrast, eða hvað?

Það er þangað sem við erum að senda þennan hóp eldri borgara. Við erum að senda hann í félagslega einangrun og vanlíðan. Oftar en ekki hefur það sýnt sig að ef eldri borgarar sem eru að fara af vinnumarkaði eru ekki með sterkt tengslanet og fjölskyldu eiga þeir á hættu að einangrast heima einir. Þeim líður illa og þeim hrakar hratt heilsufarslega. Ég held að það frumvarp sem við leggjum hér fram sé slíkt lýðheilsumál að það ætti að vera óumdeilt. Við ættum að geta tekið saman höndum og sýnt í verki að við berum virðingu fyrir eldri borgurum og erum tilbúin að leggja okkar af mörkum til að koma til móts við þá sem berjast í bökkum. Og gerum það sem í okkar valdi stendur til að veita þeim áhyggjulaust ævikvöld.

Ég vona, virðulegi forseti, að ég þurfi ekki að leggja þetta frumvarp fram eftir ár næst á eftir umræðu um búvörulög. Sú umræða var frábær, en mikið væri nú ánægjulegt ef umræðan um eldri borgara og afnám frítekjumarks á launatekjur tæki fimm tíma en ekki bara hálftíma eins og ég býst við að verði nú. Ég hef í raun ekkert meira að segja en það að ég ber virðingu fyrir eldri borgurum. Ég ber virðingu fyrir fólkinu í landinu og ég óska þess af öllu hjarta að við getum verið samstiga. Ef það kostar okkur ekki eina einustu krónu að breyta þessu, hvernig getum við mögulega réttlætt það að gera það ekki? Ég hef engin svör. Ég vildi óska þess að einhver hér inni gæti svarað mér og gæti skýrt það betur út en skýrslur og tölulegar staðreyndir, sem ég hef þegar undir höndum, gera.