149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[22:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðilega ræðu. Þetta er mjög áhugavert mál og mikilvægt.

Ég tek fram í upphafi að Viðreisn hefur haft sama markmið á stefnuskrá sinni. Hins vegar er vissulega að mörgu að huga í því. Þetta er ekki endilega jafn einfalt mál og hv. þingmaður leggur upp með. Áhugavert væri að heyra hvort hv. þingmaður, og ég veit að flokkur hennar hefur notið aðstoðar góðra sérfræðinga við undirbúning málsins, hafi velt upp ýmsum möguleikum. Í dag erum við í fyrsta lagi með 100.000 kr. frítekjumark á atvinnutekjur. Við erum líka með þann möguleika að fresta töku lífeyris með ávinningi við hækkun lífeyristekna á ári ef lífeyristöku er frestað um ár eða tvö eða þrjú. Þá er það spurningin um samspil á milli þess hvenær ákveðið er að fara á lífeyri og hversu mikið er unnið á lífeyri, því að ekki er gert ráð fyrir því í sjálfu sér að fólk sé í fullri vinnu á lífeyri. Þá er væntanlega miklu hagstæðara fyrir báða aðila, bæði viðkomandi einstakling og ríkissjóð, að töku lífeyris sé einfaldlega frestað.

En það sem maður veltir fyrir sér í því samhengi er hvort hætta sé á eins konar misnotkun á kerfinu, ef við getum kallað það svo, að fólk fari unnvörpum að taka fullan lífeyri frá 67 ára aldri en haldi áfram í fullu starfi, sem ég ætla að sé ekki tilgangurinn eða hugmyndin með frumvarpi hv. þingmanns og flokks hennar. Hafið þið látið kanna eða skoða hvaða breytt hegðun gæti orðið í töku lífeyris ef þessi breyting nær fram að ganga?