almannatryggingar.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hér er ekki verið að reyna að gera einfalda hluti flókna heldur er ég einfaldlega að velta fyrir mér upphátt hvert sé hið heppilega samspil. Við höfum sem betur fer gert verulegar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni okkar á undanförnum árum og erum að halda áfram að þróa hana. Þetta er einn liður í því. Við höfum m.a. breytt verulega skerðingarfjárhæðum til bóta fyrir ellilífeyrisþega. Ég hygg að tekjur þeirra sem taka lífeyri eingöngu frá almannatryggingum hafi hækkað um ein 25% við þá breytingu sem varð árið 2016. Það hefur verið sýnt ágætlega í samantekt m.a. Tryggingastofnunar á hækkun greiðslna og skilaði sér einmitt best til tekjulægsta hópsins, sem er vel. Þetta var merki um aðgerð sem tókst vel þótt alltaf megi gera betur.
Við höfum líka tekið upp ákvæði þar sem hægt er að taka lífeyri að hluta, þ.e. hægt er að taka hálfan lífeyri og halda áfram að vinna að hálfu án skerðinga, án þess að atvinnutekjurnar skerðist, og síðan erum við komin með 100.000 kr. frítekjumark atvinnutekna.
Eins og sagði í upphafi finnst mér þetta mál mjög áhugavert og hlakka til að sjá umræðuna sem fer fram í nefndinni um það. En ég held að þetta sé einn af þeim þáttum sem við þurfum á endanum að horfa til, samspil allra þeirra þátta og hvers konar lífeyriskerfi við erum byggja upp. Við viljum heldur ekki að verið sé að misnota það með einhverjum hætti, þ.e. að fólk sé í raun og veru að taka lífeyristekjur frá almannatryggingum en halda áfram í fullu starfi, sem er ekki tilgangur almannatrygginganna. En það hlýtur allt að koma til vandlegrar skoðunar í nefnd þegar málið fer þangað.