149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[22:37]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir. Auðvitað er ekki meiningin að sú staða komi upp að kerfið sé misnotað, enda er illmögulegt að misnota kerfi sem er svona rammlega um búið. Það er 25.000 kr. mark á öllu öðru sem fólk hefur, lífeyrissjóðsgreiðslum, fjármagnstekjugreiðslum. Við skulum ímynda okkur að flestir þeirra sem eru efnameiri í hópi eldri borgara eigi eignir og séu með fjármagnstekjur. Þeir standa vel. Þeir einstaklingar munu ekki og geta ekki fengið út úr almannatryggingakerfinu, sem við vitum öll að er upphaflega byggt sem öryggisnet frekar en viðbót. Það er byggt sem öryggisnet fyrir þá sem þurfa á því að halda. Það er nákvæmlega það sem við erum að kalla eftir núna, að þeir sem geta nýtt sér það og eru búnir að greiða í lífeyrissjóði alla sína ævi geti tekið út lífeyrinn þegar þeir eru tilbúnir til en samt sem áður fengið að halda áfram að vinna, vegna þess að lífeyrissjóðurinn þeirra greiðir þeim oft og tíðum ekki nema nokkrar krónur í samanburði við það sem þeir hafa lagt af mörkum á starfsævinni.

Ég er bjartsýn og held að ef og þegar við skoðum málið betur og það fer til nefndar eigum við eftir að velta við mörgum steinum. Ég er alveg sannfærð um að sú skýrsla sem við byggjum á og er hóflega áætluð á eftir að sanna sig og sýna að við getum gert góða hluti fyrir þann hóp eldri borgara sem virkilega stendur höllum fæti.