149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[22:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Fyrir einhverja handvömm er ég ekki meðal flutningsmanna á þessu frumvarpi en hópur Miðflokksmanna er stuðningsmenn þess og meðflutningsmenn. Það vill þannig til að Miðflokkurinn lagði til við fjárlagaumræðu í fyrra, þ.e. milli 1. og 2. umr., einmitt þetta atriði, að atvinnutekjur myndu ekki rýra lífeyristekjur og tillagan sem var flutt milli 1. og 2. umr. í fyrra var felld að viðhöfðu nafnakalli og þeir sem voru á móti voru náttúrlega stjórnarliðar, en jafnaðarmenn sátu hjá. Merkilegt nokk, tóku ekki afstöðu til þessa þjóðþrifamáls vegna þess að það er þannig að sá hópur sem frumvarpið, verði það að lögum, tekur til er kannski svona milli 3.000 og 5.000 manns. Það eru væntanlega þeir sem hafa kannski ekki mjög sterkan lífeyri enn þá, því að sú kynslóð sem nú er komin á ellilaun er í hópi þeirra sem ekki hafa mjög sterkan lífeyrissjóð.

Það vill þannig til eins og menn vita að þeir sem eru að fara á lífeyri akkúrat núna í almenna kerfinu fá að meðaltali um 55% að hámarki af síðustu launum. Auðvitað er það þannig að mjög marga í þessum hópi munar um að geta unnið eins og þeir kjósa, geta og vilja, án þess að ríkissjóður sé að skerða réttindi þeirra á annan hátt. Í sjálfu sér er það náttúrlega dómadagsvitleysa að gera það vegna þess að af þeim launum sem menn vinna sér inn að auki, sem sagt við lífeyrinn, borga menn náttúrlega fullan skatt, þannig að ríkissjóður fær líklega upp undir 40% af þessum launum strax til baka. Og til hvers nota aldraðir rýmri fjárhag? Jú, þeir gera kannski betur við barnabörnin sín eða sig sjálfa og auka þar með veltu í þjóðfélaginu, þetta kemur því til baka. Þeir sem eru vinnandi og hafa til þess heilsu, getu og krafta eru yfir höfuð heilsubetri en þeir sem ekki vinna og þeir verða ekki félagslega einangraðir, eða síður. Það er ekkert nema gott um þetta mál að segja hvernig sem á það er litið.

Ég verð að bæta því við að Miðflokkurinn hefur stigið eitt skref í viðbót við þetta hér og er komið á skrá þó að ekki sé búið að leggja það fram til umræðu. Það er frumvarp okkar um að ríkisstarfsmenn geti eða megi vinna til 73 ára aldurs ef þeir svo kjósa áður en þeir byrja að taka eftirlaun. Þessi tvö mál, bæði þetta og það mál, eru til þess gerð að koma til móts við það að við erum að verða eldri, við erum heilsubetri fram eftir ævinni og það er í sjálfu sér sóun að veita ekki þeim eldri borgurum tækifæri til að vinna sem vilja og geta.

Formaður Landssambands eldri borgara, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur orðað þetta mjög vel. Hún sagði á fundi sem ég sat einhvern tímann að eldri borgarar fari ekki fram yfir síðasta söludag þó að þeir bæti við einu ári í ævina. Þetta er alveg hárrétt. Það fólk er náttúrlega með mikla reynslu, mikla þekkingu, þannig að við erum í sjálfu sér líka, miðað við það að reisa hindranir við því að það fólk geti unnið, að sóa kröftum. Við erum að sóa kröftum sem við getum haft not af.

Mig langar að nefna eitt dæmi vegna þess að það hefur örlað aðeins á því í seinni tíð, ég veit reyndar ekki hvernig menn fara út úr því að vinna þannig miðað við þær skerðingar sem nú eru uppi, en maður hefur t.d. orðið var við það, sem betur fer, að í byggingarvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu eru eldri iðnaðarmenn farnir að afgreiða, menn sem vita, skilja, kunna og geta veitt góð ráð. Þetta eru menn sem eru með 40 ára reynslu að baki eða meira og vita nákvæmlega um hvað allt snýst sem þeir eru að fást við. Þetta nefni ég bara sem eitt dæmi. Ég gæti nefnt dæmi af því líka, sem kemur kannski inn á þetta 73 ára frumvarp sem ég nefndi hér í framhjáhlaupi, þ.e. af háskólakennurum sem eru dæmdir til að fara frá starfi mánuði eftir að þeir verða sjötugir með hausinn stútfullan af þekkingu og reynslu. Þetta er sóun. Við höfum ekki efni á því. Það fólk er ekki að taka vinnu frá neinum öðrum, það er ekki að taka vinnu frá yngra fólki, það er ekki að taka vinnu frá einhverjum sem eru á atvinnuleysisskrá vegna þess að atvinnuleysi er nánast óþekkt á Íslandi. Við erum reyndar að flytja hingað inn tugi þúsunda manna til að vinna, sem er mjög gott. En hvers vegna þá ekki að greiða fyrir því að þessi 3.000–5.000 manna hópur aldraðra geti unnið eins og hann hefur getu og vilja til? Það er óskiljanlegt.

En ég er bjartsýnn. Ég vænti þess að þrátt fyrir þetta frumvarp muni Miðflokkurinn leggja fram milli 1. og 2. umr. fjárlaga einmitt þá tillögu að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Ég vænti þess að við munum kalla aftur eftir því að menn geri það uppskátt með nafnakalli hvaða hug þeir hafa til þess og gefi þess vegna þeim sem annaðhvort sátu hjá eða voru á móti hér síðast tækifæri á að bæta ráð sitt og koma til móts við þann hóp sem á það sannarlega skilið. Þetta er hógværasti hópur á Íslandi. Þetta er hópurinn sem krefst einskis, gerir engar kröfur, gengur að sínu á hverjum degi möglunarlaust. Það fólk á ekki skilið af okkur að við reisum einhverjar girðingar við sjálfsbjargarviðleitni þess. Það er bara til skammar að gera það.

Ég fagna því frumvarpinu, að það skuli vera komið á dagskrá og ég vona sannarlega að það hljóti skjóta afgreiðslu í nefnd. Ég vona að þingmenn séu upp til hópa á þeirri skoðun að hópur eldri borgara eigi það skilið af okkur að við greiðum fyrir því að hann geti aukið lífsgæði, því að til þess er þetta mál líka komið fram.

Að öðru leyti segi ég aftur: Við sem þjóð höfum ekki efni á því að reka fólk frá vinnu sem vill vinna. Við höfum ekki efni á því að rýra lífsgæði fólks sem vill bjarga sér sjálft. Við höfum ekki efni á því að dæma fólk til félagslegrar einangrunar sem vill vera virkir þátttakendur í þjóðfélaginu og við höfum ekki efni á því og höfum ekki rétt til þess að koma þannig fram við fólk sem hefur í raun byggt þjóðfélagið upp og gert Ísland að því landi sem það er í dag. Við verðum að horfa á það aftur, herra forseti, að sá hópur sem þetta frumvarp tekur til er einn af síðustu hópunum sem býr við hvað lökust lífeyrisréttindi af þeim sem nú eru lifandi, vegna þess að þrátt fyrir allt þokast lífeyrisgreiðslur í rétta átt og lífeyrisréttindi þokast í rétta átt, þannig að þeir sem fara t.d. á lífeyri eftir tíu ár eru væntanlega töluvert miklu betur settir en þeir sem eru akkúrat að fara inn á lífeyri núna.

Ég segi enn og aftur: Við skulum taka höndum saman og gera þeim hópi fólks kleift að auka sín lífsgæði, geti gert betur við sig og sína og tekið fyllri þátt í þjóðfélaginu eins og það kýs, vill og getur. Við skulum ekki leggja stein í götu þess fólks. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)