149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[22:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp okkar í Flokki fólksins um að eldri borgarar geti fengið að vinna án skerðingar. Það hafa verið smáumræður hér á undan og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi það að fresta lífeyri, hvort það væri ásættanlegt. Ég segi nei. Ég hvet alla eldri borgara þarna úti sem geta unnið og eru að vinna til að taka lífeyri. Borgið skatt af honum, leggið hitt inn á bók, þetta er peningur sem þið eigið. Ef fólk getur gert þetta í fimm eða tíu ár á það helling af pening inni á bók. Þegar fólk fellur frá er það erfanlegt. Ef fólk fellur frá og á engan erfingja hverfur það í hít lífeyrissjóðanna. Þetta eru einu öruggu peningarnir sem þið eigið, ef þið ætlið að fá eitthvað út úr þessu lífeyriskerfi sem þið eruð búin að borga í alla tíð.

Horfum á annað. Á sama tíma í fyrra, um svipað leyti og þetta frumvarp kom fram fyrst, voru sett lög um hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun og hálfan frá lífeyrissjóði. Það merkilegasta við það frumvarp var að það var svo arfavitlaust miðað við það sem var í gangi en samt var það, hvað eigum við að segja, framsækið, því að þar var því hleypt fram óheft að maður fengi hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun og hálfan frá lífeyrissjóði og mætti vinna eins og maður vildi. Þeir sem græddu mest á því voru hátekjufólkið. Það sem var enn furðulegra var að þeir sem fengu undir 120.000 kr. frá lífeyrissjóði fengu ekki neitt. Það voru þeir sem þurftu helst á þessu að halda. Þeir gátu ekki farið inn í þetta kerfi. Spáum í hvers lags bull var þar í gangi.

Ég veit að þeir ætla sér að leiðrétta þetta og búa til kerfi þannig að það verði settar á skerðingar. En hvers lags heimska er það að horfa ekki á þetta heildrænt? Hvernig getur einhverjum dottið í hug að segja við fólk að það megi ekki vinna? Ef manni dettur það í hug eftir að hann er orðinn 67 ára að halda áfram að vinna ætlum við að skerða hann. Ekki bara smá, nei, við látum á hann 80% skatt.

Á sama tíma sjáum við fólk með fjármagnstekjur upp á 10–15 milljónir á mánuði, á annað hundrað milljónir á ári. Það borgar 20% skatt, tvær krónur af hverjum tíu. En hvað með eldri borgara sem ætlar að reyna að bjarga sér og lífeyrir dugir honum ekki, ef hann ætlar að vinna til að ná inn fyrir mat eða lyfjum? Nei, það eru átta krónur af hverjum tíu hjá honum. Ef þetta kallast réttlæti spyr ég bara: Hvernig er þá óréttlæti? Hvernig lítur það út?

Í þessari umræðu er alltaf sagt: Þetta gengur ekki upp. Við getum ekki haft það þannig að fólk megi vinna og það séu engar skerðingar. Það er ekki hægt vegna þess að þeir sem hafa hæsta lífeyrinn myndu græða svo mikið. En það stenst ekki. Við 560.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslur — spáum í þetta, kannski er þetta tilviljun, en er það tilviljun? Ef við tökum þingmannalaunin, 57–60% af þeim, hjá þingmanni sem fengi full eftirlaun væri hann búinn að vinna það lengi á þingi, hvað fær hann út? Nálægt þessum tekjum, 560.000–600.000 kr. Hvað þýðir það? Jú, ef þessi þingmaður færi út að vinna áfram, væri hættur á þingi en fengi sér aðra vinnu og fengi 100.000 kr., borgar hann 37.000 kr., segjum 40, hann er hátekjumaður, fer upp í 40.000 kr. í skatt. En hinn, verkamaðurinn sem fær 100.000–200.000 kr., fer yfir 100.000 kr. frítekjumarkið upp í 200.000 kr., hann fer út að vinna og ætlar að reyna að bjarga sér. Hvað þarf hann að borga? 80% skatt. Er þetta réttlæti? Ég segi nei. Þetta stenst ekki á nokkurn hátt.

Það er annað í þessu sem við gleymum alltaf í þessari umræðu, það er sá skattur sem er nú þegar á lífeyrissjóðum. Hvað er ríkið að fá út úr lífeyrissjóði við skerðingar? Tökum hér fyrirspurn frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni á 146. löggjafarþingi 2016–2017. Þar kemur fram að hjá örorkulífeyrisþegum eru þetta 7,5 milljarðar, hjá ellilífeyrisþegum 30 milljarðar. Samanlagt 37 milljarðar sem eru skerðingar sem Tryggingastofnun yrði að borga, segja þeir, ef hætt yrði að skerða bætur úr lífeyrissjóði. Skatttekjur eru ekki inni í þessu.

Það segir sig sjálft að þetta kerfi, skerðingarkerfi sem er búið að byggja upp ásamt mörgum öðrum kerfum gagnvart öryrkjum og launum þeirra, er arfavitlaust. Ef maður fær 100.000 kr. og á að borga 80.000 kr. í skatt eða skerðingar á maður 20.000 kr. eftir. Þá á maður eftir að koma sér í og úr vinnu. Það sér hver heilvita maður að þetta stenst ekki, getur ekki virkað.

Í árferði eins og hefur verið undanfarin ár þar sem vantar vinnuafl og við þurfum að flytja inn vinnuafl hlýtur að vera eitt það heimskulegasta sem við gerum að segja við þá sem vilja vinna: Við ætlum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þið fáið ekkert út úr því ef þið dirfist gera það. En ef þið eruð með svo góðan lífeyri, ef þið eruð á háum tekjum, hafið haft það gott alla tíð og viljið ekkert hafa með Tryggingastofnun að gera og þurfið ekkert á henni að halda, þá megið þið vinna. En hvað ef þið þurfið nauðsynlega á því að halda til þess að geta keypt lyf, lifað mannsæmandi lífi eða bara hreinlega vegna þess að þið viljið vinna til að fá félagsskap? Nei, þá ætlum við að refsa ykkur.

Þegar frumvarp okkar var lagt fram í fyrra voru nokkrir aðilar sem sendu inn umsagnir við það. Ein af þeim var frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umsögn hennar, með leyfi forseta, var þannig:

„Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) hefur borist til umsagnar ofangreint frumvarp til laga um breytingu á lögum almannatryggingar. Með frumvarpinu er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna.

MRSÍ telur breytinga þörf frá því sem nú er. Þó gengið sé út frá því að hver og einn skuli sjá sér farborða og stuðningur ríkisins komi ekki til nema viðkomandi sé ófær um það, þá verður og að taka tillit til þess að engin hvatning er til staðar fyrir þá sem enn vilja vinna og hafa getu til, ef greiðslur frá almannatryggingum skerðast við nánast allar þær atvinnutekjur sem til koma svo sem nú er. Óumdeilt er, líkt og greinargerð með frumvarpinu bendir á, að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi.

Því telur MRSÍ að hið minnsta beri að hækka frítekjumörk verulega.“

Þarna kemur skýrt og skorinort fram að þetta eru mannréttindi. Þarna er verið að brjóta mannréttindi. Það segir sig sjálft og er gersamlega kristaltært að það að banna fólki að vinna er eitt en þegar það er gert þannig að fólk tapar á því eins og er gert við öryrkja og núna líka ellilífeyrisþega er eitthvað að hjá okkur. Þá er eitthvað í kerfinu sem ég myndi segja að væri hreinlega bilað. Við þurfum að laga það, taka okkur til og breyta þessu, koma okkur út úr þessum stórfurðulega kassa sem er búið að setja allt þetta kerfi inn í. Við verðum að fara að hugsa kerfið algerlega upp á nýtt. Ef við byrjum hérna, hjá ellilífeyrisþegum, er ég alveg sannfærður um að við tökum skrefið næst hjá örorkulífeyrisþegum. Það er öllu kerfinu til góða að fólk vinni.

Öryrkjabandalag Íslands sendi inn athugasemdir við frumvarpið. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„ÖBÍ styður og leggur áherslu á afnám skerðinga elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Frumvarp um afnám skerðingar vegna atvinnutekna þyrfti því að vera víðtækara og ná til allra lífeyrisþega. Örorkulífeyrisþegar eru á aldrinum (18–66 ára) þar sem atvinnuþátttaka fólks er hvað mest. Mikilvægt er að fólk, einnig þeir sem eru með skerta starfsgetu, fái tækifæri til atvinnuþátttöku og beri einnig eitthvað úr býtum með atvinnuþátttöku sinni. Kanna þarf vel samfélagslegan ávinning af því að afnema skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna atvinnutekna. Ætla má að atvinnuþátttaka lífeyrisþega muni aukast í kjölfarið og þar með einnig skatttekjur ríkissjóðs. Með aukinni atvinnuþátttöku gætu örorkulífeyrisþegar bætt ráðstöfunartekjur sínar og auk þess náð að leggja meira fyrir í lífeyrissjóð og þar með bætt stöðu sína fyrir efri árin.“

En svo gleymum við alltaf einu. Hvað skeður þegar öryrki verður 67 ára? Jú, kraftaverk í boði ríkisins. Í boði ríkisins verður viðkomandi öryrki fullheilbrigður. Hann er ekki lengur öryrki. Hann er orðinn ellilífeyrisþegi. Þá er bara allt önnur staða.

Það hlýtur að vera svolítið undarlegt þegar við hugsum um það að öryrki sem er kannski búinn að vera alla sína ævi í þeirri stöðu að vera með sérstaka uppbót og hefur aldrei getað hreyft sig vegna skerðinga á neinn hátt, en um leið og hann verður 67 ára hverfur þetta allt og kemur upp nýtt kerfi. Hann er bara fullheilbrigður í boði ríkisins og á ekki rétt á öðru en því sem kemur með ellilífeyri og í flestum tilfellum stórlækkar hann í kerfinu. Hann á kannski ekki annarra kosta völ en að reyna að bjarga sér í vinnu en þá eru möguleikar hans til vinnu orðnir mun verri.

Ég vil í lokin benda á að það er enginn vandi að reikna það út og er bara rökrétt og heilbrigð skynsemi að við eigum að sjá til þess og stuðla að því að það sé hvergi nokkurs staðar í kerfinu þannig um hnútana búið að við segjum við fólk: Þú mátt ekki vinna. Og ef þú ætlar að vinna og ert með lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóðum ætlum við að skerða þig, við ætlum að banna þér að vinna. (Forseti hringir.) Það er það heimskulegasta sem maður getur nokkurn tíma gert og þetta er það heimskulegasta sem við höfum nokkurn tíma sett í lög.