almannatryggingar.
Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, sem hafa verið allnokkrar. Þessi breyting lýtur að afnámi skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. Ég fagna frumvarpinu, tel umræðu um breytingar í þessa átt réttlætismál og vonast til þess að í meðförum þingsins fái það jákvæða og uppbyggilega umfjöllun eldri borgurum til hagsbóta. Ég styð frumvarpið og efni þess. Við erum nefnilega á villigötum og höfum verið það um skeið, að mínu áliti. Við höfum, eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns áðan, verið að sóa kröftum. Hér getum við virkjað, hér eru virkjunarkostir margir og góðir og allir eru þeir umhverfisvænir.
Það má segja að það sé svo sem ekki sjálfstætt markmið í sjálfu sér að sem flestir aldraðir séu þátttakendur í atvinnulífinu, vinni sem lengst og sem mest, en að menn séu óbundnir að þessu leyti, þ.e. að þeir sem kjósa og hafa aðstöðu til geti valið að vinna lengi fram eftir aldri. Hlutfall eldri borgara á Íslandi er lægst meðal OECD-ríkjanna og atvinnuþátttaka þeirra er mikil, meiri en í nágrannalöndum okkar. Á aldursbilinu 65–69 ára eru það a.m.k. 53% en hlutfallið er mun lægra, t.d. í Bretlandi, Svíþjóð, Hollandi og Danmörku. Þetta gerist þrátt fyrir það hamlandi og letjandi kerfi sem við búum við.
Það tíðkast meðal flestra iðnvæddra þjóða að fólk fer frekar snemma á eftirlaun. Það gera Íslendingar síður. Þeir fara seinna á lífeyri. Þessa stefnu iðnvæddra ríkja má rekja til þess að stjórnvöld þar vildu til skamms tíma hvetja eldra fólk til að hætta vinnu til að yngra fólk fengi vinnu. En með breyttri aldurssamsetningu, minni eftirspurn eftir vinnu hjá yngra fólki og meiri eftirspurn og framboði eldri borgara sem vilja vinna þarf að endurskoða þessa hugsun. Fólk er heilsuhraustara nú en áður og fleiri geta verið lengur á vinnumarkaði. Þar er stuðst við og fylgt áliti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á viðhorfum til miðaldra eða eldra fólks á vinnustöðum. Víða hafa verið gerðar rannsóknir og úttektir. Þessar rannsóknir hafa verið gerðar vegna kenninga eða viðhorfa — eða hindurvitna — um að starfsmenn sem eru miðaldra eða eldri vinni hægar, eigi erfiðara en yngra fólk með að tileinka sér nýja tækni og aðferðir og því eru meiri líkur á að yngra fólk sé ráðið til starfa. Niðurstöður rannsókna hafa þó sýnt að eldri starfsmenn eru mikils metnir innan fyrirtækja vegna þeirra kosta sem þeir hafa. Þar má nefna góða starfsfærni, lífsreynslu, vandvirkni, ábyrgð í starfi og jákvætt viðhorf.
Í íslenskri rannsókn, sem gerð var í meistaranámi ekki alls fyrir löngu, var könnuð upplifun og viðhorf stjórnenda til miðaldra og eldri starfsmanna. Þeir sem tóku þátt í rannsókninni voru raunar allir stjórnendur fyrirtækja innan verslunargeirans. Helstu niðurstöður sýndu að stjórnendur töldu eldri starfsmenn almennt hafa betra vinnusiðferði, nákvæmari vinnubrögð, betri mætingu og sýna fyrirtækinu meiri hollustu. Meiri hluti stjórnenda sá engan mun á því hvort eldri eða yngri starfsmenn leystu verkefni sín fyrr. Eldri starfsmenn voru frekar tilbúnir að deila reynslu sinni og þekkingu með öðrum en þeir yngri. Það helsta sem stjórnendum fannst að eldri starfsmenn mættu bæta var færni á tölvu og notkun á veraldarvefnum. Almennt voru viðhorf til eldri starfsmanna jákvæð.
Gerðar hafa verið viðhorfskannanir meðal eldra fólks og spurt hvort það gæti hugsað sér að fara út á vinnumarkaðinn. Reyndar var tæplega helmingur svarenda í vinnu en þriðjungur sýndi að auki mikinn áhuga ef það hefði af því einhvern fjárhagslegan ávinning, ef það skerti ekki bætur þeirra til muna frá Tryggingastofnun ríkisins.
Á sama tíma og Alþingi lögfesti breytingar á almannatryggingum haustið 2016 lá fyrir að lífeyrisþega sem bjó einn á bótum Tryggingastofnunar einum saman vantaði um þriðjung til að tekjur dygðu fyrir lágmarksframfærslu. Svona var nú ástandið. Allt að 50% vantaði upp á að lífeyrir Tryggingastofnunar dygði fyrir dæmigerð neysluviðmið velferðarráðuneytis. Að þessari niðurstöðu komst Harpa Njálsdóttir sem er sérfræðingur í velferðarmálum og hefur ritað og tjáð sig um þetta í áratugi.
Sú umgjörð sem við búum öldruðum, herra forseti, er aldeilis óviðunandi. Breytingar þarf að gera hratt. Við eigum ekki að láta okkur nægja þá hugsun að dropinn holi steininn. Almennar reglur eiga að gilda um aldraða í skattkerfinu rétt eins og um aðra borgara. Ef þeir kjósa að starfa á vinnumarkaði þar sem mikil þörf er fyrir þá — á Íslandi er þörf fyrir allar vinnandi hendur og við þurfum meira að segja að flytja inn vinnuafl til að geta komið því í kring sem við viljum gera — er ekkert eðlilegra en að þeir greiði skatta og gjöld eins og hver annar borgari. Við þurfum að tryggja að þeir sem ekki geta sótt vinnumarkaðinn, eða kjósa að gera það ekki, geti lifað sómasamlegu lífi af eftirlaunum sínum. Þannig var og er almannatryggingakerfið hugsað, öryggiskerfi fyrir alla landsmenn.
Herra forseti. Upplýsingar liggja fyrir um að greiðslur ríkis og lífeyrissjóða til eftirlauna nemi um 10% af vergri þjóðarframleiðslu hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Hér nema þær aðeins um 5%, helmingi minna. Þetta verður auðvitað að skoða í ljósi mismunandi lífeyrissjóðauppbyggingar. Ef athugað er hve mikið ríkið eitt greiðir til eftirlauna á Norðurlöndum er munurinn meiri. Á Íslandi ver ríkið rúmlega 2–3% af vergri þjóðarframleiðslu til eftirlauna en í Danmörku greiðir ríkið um 8% til eftirlauna. Auk þess er lífeyrir aldraðra og öryrkja miklu hærri í hinum norrænu ríkjunum en hér.
Herra forseti. Það er sama hvernig við veltum þessu fyrir okkur og skoðum samanburð í málefnum almannatrygginga og í lífeyrismálum. Ísland rekur alls staðar lestina.