149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[23:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Þegar svo áliðið er orðið kvölds skal ég kosta kapps um að stytta mál mitt eftir föngum. Við fjöllum hér um afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. Málið kemur hér fram öðru sinni, borið fram af Flokki fólksins og með stuðningi ágætra hv. þingmanna úr einum þremur öðrum flokkum. Hér takast á, í innsta kjarna málsins, tvö meginsjónarmið. Það er hið gróna íslenska viðhorf að í krafti sjálfsbjargarviðleitni eigi hver maður að geta bætt sinn hag. Hitt viðhorfið, sem hefur verið teflt fram af þeim sem hafa kannski ekki verið mjög áfjáðir í að sjá þessa tillögu lögfesta, er að þessu fylgi umtalsverður kostnaður fyrir opinbera aðila.

Í þessu skulum við athuga eftirfarandi: Fyrra atriðið er eins konar meginsjónarmið, gott og gilt íslenskt viðhorf þó að það sé kannski ekki endilega bundið við Ísland. Það eru sömuleiðis önnur sjónarmið sem þarna eiga hlut að máli. Áður en ég kem að þeim vil ég auðvitað segja það að upp rifjast orð Kára Sölmundarsonar í Brennu-Njálssögu þar sem hann segir: „Það er hverjum manni boðið að leita sér lífs meðan kostur er.“ Að breyttu breytanda getum við sagt sem svo: Það er hverjum manni boðið að bæta hag sinn eftir því sem kostur er.

Hér hafa verið dregnir fram aðrir þættir sem að flestra manna dómi eru óumdeildir. Það eru þættir eins og þeir sem tengjast lýðheilsu og félagslegum þáttum. Þeir hafa verið nefndir svo oft og ég þarf ekki að fara yfir þá. En varðandi þann þátt sem hefur verið dreginn fram sem öndverður gagnvart þessu frumvarpi, varðandi kostnaðinn: Af hálfu hæstv. fjármálaráðherra hefur verið kvartað yfir því að svo margar tölur hafi verið bornar fram í þessu máli og það er greinilega mjög erfitt að vera fjármálaráðherra við þessar aðstæður. En þær tölur sem hafa heyrst í þessu sambandi eru allar frá ráðuneyti ráðherrans eða frá ráðherranum eða forvera hans. Það er bara ein tala sem hefur komið fram af hálfu þeirra sem hafa borið þetta mál fram og það er talan 0 kr., þ.e. að kostnaður sé enginn. Það er eina talan sem þeir sem hafa beitt sér fyrir þessu máli hafa haldið á lofti.

Sú tala er rökstudd. Hún er rökstudd í skýrslu sem hefur verið vitnað til. Hún heitir Kjör aldraðra: Greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra og er unnin fyrir Félag eldri borgara og höfundurinn er dr. Haukur Arnþórsson. Þessi skýrsla er dagsett í nóvember 2017.

Höfundur fjallar rækilega um kostnað við afnám skerðinga á launatekjur og bætir því við að margir aldraðir vilji vinna en fái tiltölulega lítinn hluta launa sinna ef þeir eru á ákveðnu tekjubili. Síðan er birt tafla í greinargerð Hauks þar sem fram kemur að afnám skerðinga af launatekjum gæti kostað ríkissjóð um 3,5 milljarða kr. en á móti komi auknar tekjur í ríkissjóð. Þeir þættir sem skýrsluhöfundur, Haukur Arnþórsson, dregur fram eru tekjuskattur upp á tæplega 37% af hverri krónu, veltugjöld, virðisaukaskattur og vörugjöld, tekjuskattur af auknum vinnutekjum, veltugjöld, virðisaukaskattur og vörugjöld af auknum vinnutekjum og samfélagsleg áhrif. Höfundi telst til að þegar tekið hefur verið tillit til þessara þátta, sem allir vita að eru hluti af skattkerfinu hér, gæti ávinningurinn af aðgerðinni fyrir ríkissjóð verið einir 4,2 milljarðar kr., borið saman við þessa 3,5 sem hún myndi kosta. Þá er ríkissjóður bara óvart með hagnað. Það er því ekki eins og það sé sett fram af gáleysi eða í fljótfærni að halda því fram að þessi aðgerð kosti ríkissjóð ekki neitt heldur gæti ríkissjóður jafnvel haft ávinning af henni.

Ég vænti góðs af meðferð þessa máls á vettvangi hv. nefndar. Það verður mjög áhugavert að sjá umsagnir um það. Ég leyfi mér að lýsa þeirri von að þetta mál fái góða og greiða leið hér í gegnum Alþingi.