almannatryggingar.
Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð í því sem ég tel að sé seinni hluti umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem fjallar um afnám skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna. Mig langar að byrja á að taka undir með þeim sem hér hafa talað í kvöld um mikilvægi þess að horfa heildrænt á kjör eldri borgara. Það held ég að sé alveg gríðarlega mikilvægt að gera.
Ég átta mig líka á því að það er ekki algjörlega einfalt mál hvernig eigi að gera það. Líkt og hv. þingmenn hafa komið inn á í ræðum sínum eru óskaplega margar breytur sem spila inn í þegar taka á inn allar þær þjóðhagslegu breytur sem það að hreyfa til í kerfinu getur haft í för með sér. Ég held að þó að okkur kunni að einhverju leyti að greina á um leiðirnar séum við í grunninn sammála um að við viljum að kjör eldri borgara í þessu landi séu sem allra best.
Sem betur fer eru kjör margra í hópi eldri borgara góð en það á ekki við um alla og ég efast ekki um að það er talsverður hópur sem getur og vill bæta kjör sín með því að halda áfram að vinna þó að 67 ára aldri sé náð. Ég tel það mjög gott og blessað en nú þegar hv. velferðarnefnd fer að kafa ofan í þetta mál langar mig að skjóta því inn í umræðuna að á vegum velferðarráðherra er starfandi starfshópur sem hefur það hlutverk að fara yfir kjör ellilífeyrisþega. Hópurinn á að skila af sér 1. nóvember nk. Ég sit ekki sjálf í hópnum og veit í sjálfu sér ekki hver efnistök hans hafa verið eða hvernig hann hefur hagað vinnu sinni en veit það eitt að samkvæmt skipunarbréfinu á hann m.a. að huga að kjörum þeirra sem þurfa að reiða sig á ellilífeyri almannatrygginga sér til framfærslu.
Eftir því sem ég best veit er hópurinn á lokametrunum í sinni vinnu. Hérna falla tímalínurnar saman með hv. velferðarnefnd þó að vitanlega eigi nefndin einnig að skoða hvað kemur út úr þessum starfshópi sem tilnefndir aðilar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu eiga sæti í en einnig þrír fulltrúar sem eru tilnefndir af Landssambandi eldri borgara. Líkt og ég sagði áðan tel ég mjög mikilvægt að við horfum heildrænt á þessi mál. Það er aldrei að vita nema einhverjar tillögur komi frá þessum hópi sem gagnast inn í þessa vinnu þegar við metum hvernig best verði að því staðið að bæta kjör eldri borgara á Íslandi.