149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

almannatryggingar.

24. mál
[23:31]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni með okkur hér í kvöld og verð að segja að ég er bljúg gagnvart því. Ég bjóst hreinlega ekki við því að við myndum fá svona góðar undirtektir, miðað við hvernig það var fyrir ári. Ég er full bjartsýni um það að hugsanlega þurfum við ekkert að mæla fyrir þessu á næsta ári, ekki í þriðja sinn, er það?

Ég verð að koma inn á það sem lýtur að tölum. Þá er aðeins ein tala sem Flokkur fólksins hefur haldið á lofti um kostnað, það er talan 0. Lítum á miklu hærri töluna sem kom úr skýrslu Hauks Arnþórssonar sem er 2,5 milljörðum hærri en sú tala sem kom frá Tryggingastofnun sjálfri í umsögn hennar núna í vor, tala dr. Hauks Arnþórssonar í töflu hans var um 3,5 milljarður, ekki 3,7 ef ég man rétt, en ríkissjóður fengi til baka rúma 4 milljarða. Þetta var í rauninni hagnaður fyrir ríkissjóð upp á á sjöunda hundrað milljónir króna.

En ef við tækjum nú mark á því sem Tryggingastofnun sagði í sinni umsögn, að það kostaði rúman milljarð, sér hver heilvita maður að hagnaðurinn fyrir ríkissjóð væri 3,5 milljarðar kr., þannig að við þurfum ekki að vera mjög skörp í reikningi.

Það eina sem ég vil leggja sérstaka áherslu á er nákvæmlega þetta. Flokkur fólksins hefur haldið á lofti einni tölu, það er talan 0. Allt annað er plús. Allt annað er hagur. Við höfum meiri ástæðu til að ætla að þessi breyting væri jákvæð, ekki bara fyrir ríkissjóð heldur fyrir eldri borgara, þá sem þurfa og geta átt kost á því að fara út að vinna.

Við eigum dulinn mannauð í eldri borgurum okkar, þekkingu og reynslu þeirra og öllu því góða sem hér hefur verið sagt í kvöld og hefur komið fram í umræðunni. Ég vil undirstrika að ég trúi því og treysti að hv. velferðarnefnd muni taka vel utan um málið okkar og fylgja því úr hlaði af sinni góðu og gegnu fagmennsku. Og enn og aftur vil ég sérstaklega þakka þær góðu undirtektir og þá málefnalegu umræðu sem við höfum átt saman í kvöld.