skilgreining auðlinda.
Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda. Ásamt mér flytja tillöguna hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorsteinn Sæmundsson. Hún hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreini hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru.
Frumvarpið verði lagt fram á 150. löggjafarþingi.“
Tillaga sama efnis var áður lögð fram á 139.–141., 143. og 145. löggjafarþingi og var fyrsti flutningsmaður hennar á öllum þingum þáverandi þingmaður, Vigdís Hauksdóttir.
Með tillögunni er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að fá sérfræðinga, svo sem á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar, til að semja frumvarp sem skilgreinir hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Með tillögunni er umhverfis- og auðlindaráðherra falið að velja sérfræðinga til starfans en mikilvægt er að þeir hafi mikla þekkingu á þessu sviði, geti unnið saman og gert frumvarp um efnið og nái að ljúka þeirri vinnu fyrir lok 149. löggjafarþings. Með tillögunni er einnig lagt til að frumvarpið verði lagt fram í upphafi 150. löggjafarþings.
Auðlindaréttur er tiltölulega ný fræðigrein í íslenskri lögfræði og nátengdur umhverfisrétti. Eðli málsins samkvæmt fjallar auðlindaréttur um þær réttarreglur sem varða stjórnun, nýtingu og meðferð auðlinda. Heildstæð stefna um nýtingu auðlinda hefur ekki verið mótuð að neinu marki hérlendis.
Eitt af því sem stuðlar að ábyrgri umhverfishegðun er að líta svo á að náttúruauðlindir og réttur til þess að nýta þær hafi verðgildi þó að í sumum tilfellum kunni að vera erfitt að meta slíkt til fjár. Auðlindaréttur er nátengdur nýtingu náttúruauðlinda. Réttur þjóða til að njóta auðlinda sinna nýtur verndar í þjóðarétti. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 14. desember árið 1962 var samþykkt yfirlýsing nr. 1803 sem fjallar um sjálfstæði þjóða til að ráðstafa náttúruauðlindum sínum. Segir þar m.a. að nýting náttúruauðlinda eigi að þjóna hagsmunum og auka velmegun fólks í viðkomandi ríki. Hefur þessi regla verið staðfest í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
Hugtakið auðlind er víðfeðmt og nær til margra þátta samfélagsins. Talið er að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft, geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar. Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis eru taldar þjóðareign. Samfélagið sjálft getur tekið á sig að stuðla að verndun mikilvægra þátta umhverfisins, svo sem hreinleika andrúmsloftsins, og sett reglur um nýtingu dýrastofna og annarra þátta lífríkisins. Segja má að náttúruauðlindir geti verið beinn þáttur í neyslu, t.d. útivistarsvæði og veiðisvæði fyrir villt dýr. Þær auðlindir sem ekki teljast vera náttúruauðlindir, eðli málsins samkvæmt, eru t.d. mannauður, þekkingarkerfi, gagnagrunnar og önnur hliðstæð verkefni sem menn hafa skapað.
Verulega hefur gengið á fjölmargar náttúruauðlindir undanfarna áratugi, svo mikið að nú er tilfinnanlegur skortur á mörgum mikilvægum auðlindum eins og vatni og öðrum umhverfisgæðum af ýmsu tagi. Því hafa margar þjóðir heims kappkostað að finna og þróa leiðir til að nýta náttúruauðlindir með hagkvæmum hætti og beinist athyglin aðallega að hagrænum stjórntækjum sem takmarka ekki nýtingu á náttúruauðlindum, heldur haga nýtingu þannig að hún sé ábatasöm fyrir viðkomandi og heildarhag allra.
Hæstv. forseti. Með þingsályktunartillögunni fylgir ítarleg greinargerð sem ég hvet þingmenn til að kynna sér. Það er orðið löngu tímabært að við sem þjóð skilgreinum auðlindir okkar með því að setja um þær lagaramma sem lengi hefur verið beðið eftir.
Ég ætla ekki að lengja þetta mál meira, enda orðið framorðið. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillagan fari til umhverfis- og samgöngunefndar.