149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[23:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ég skuli ekki fagna þessu frumvarpi vegna þess að ég er í hjarta mínu á móti lagaákvæði um kynjakvóta í hlutafélögum. Ég tel að slíkt ákvæði gangi í rauninni gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Það að hafa af mönnum réttinn til að ráðstafa sínu hlutafé við atkvæðagreiðslu þegar kemur að skipan stjórna gengur í besta falli á skjön við anda stjórnarskrárinnar. Ég mun koma að því í ræðu á eftir.

Ég vil spyrja hv. fyrsta flutningsmann Lilju Rafneyju Magnúsdóttur: Fóru flutningsmenn yfir hvort það hreinlega stæðist, það ákvæði sem lagt er til, að dagsektir geti numið 10.000 kr. til 100.000 kr., en síðan er bætt við að heimilt sé að taka mið af fjárhagslegum styrk félags? Þetta er alveg fullkomlega óljóst ákvæði. Það veit enginn hvað felst í því. Það er umdeilanlegt hver fjárhagslegur styrkur félags er og styrkur eins félags í ákveðinni atvinnugrein getur verið veikleiki í annarri atvinnugrein o.s.frv.

Ég dreg í efa að þetta standist hreinlega þær kröfur sem gerðar eru varðandi ákvörðun sekta. Það hefði verið skynsamlegra og betra ef menn hefðu t.d. tengt þetta ákveðinni prósentu af veltu, ef þeir vilja á annað borð fara í dagsektir eins og hér er lagt til.

Ég spyr líka: Hafa hv. (Forseti hringir.) flutningsmenn velt því fyrir sér hvaða afleiðingar slíkar dagsektir geti haft fyrir íslensk fyrirtæki?