149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:00]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru sambærileg lög í Noregi eins og ég kom að í greinargerð og fyrirmyndin að þessu frumvarpi kemur frá Noregi. Lögfræðingur innan þingsins hefur unnið þetta mál og ég treysti því að það standist stjórnarskrá.

Auðvitað er það hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar að kalla á til þess bæra aðila til þess að fara ofan í saumana á þessu máli. Þarna beitum við mjög vægum viðurlögum, að ég tel, gagnvart þeim fyrirtækjum sem fara ekki eftir lögum. Auðvitað eiga allir, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, að fara eftir gildandi lögum hverju sinni. Það er auðvitað útlátalaust fyrir fyrirtæki að fara eftir lögum og komast þar með hjá viðurlögum. Því miður hefur raunin orðið önnur og það er auðvitað ekki gott. Eins og ég kom inn á hefur orðið mikið bakslag í þessu og sýnir sig að þetta hefur einhvern veginn ekki verið að virka og að það þurfi að beita viðurlögum svo að fyrirtæki taki þetta alvarlega.

Ég tel að fyrirtæki, þegar upp er staðið, muni hagnast mjög á því að fá konur inn í stjórn og þær beiti sér þar. Ég tel að það sé mikill hagur fyrirtækja að fá konur inn í stjórn og þar með að það sé blönduð stjórn í kynjahlutföllum, eins og kemur fram í lögunum, (Forseti hringir.) að lágmarki 40% af öðru hvoru kyninu.