149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:04]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virðist vera að það hafi ekki dugað til og ekki haft þann hvata, þótt þetta komi fram í þeirri lagagrein sem hv. þingmaður vitnar til. Því hefur ekki verið beitt. Annars er ég hrædd um að ansi margir myndu sitja af sér dóma miðað við að þessi fyrirtæki hafi ekki verið að framfylgja lögum.

Ég tel að það sé mjög eðlilegt að við sem horfðum til Noregs þegar við settum þessi lög á sínum tíma horfum líka til Noregs þegar við sjáum að þeim er ekki fylgt, því miður. Við göngum skrefinu lengra og tökum upp sambærileg viðurlög og eru í Noregi og virðast hafa virkað ágætlega þar. Þar er árangurinn allt annar en við horfum upp á hér.

Þegar við horfum upp á bakslag hreinlega verður að bregðast við. Annars værum við að játa okkur sigruð í þeim efnum, við værum með löggjöf sem fyrirtækin tækju ekkert mark á. Ég hvet hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar til að kalla til þess bæra aðila til að fara yfir þetta mál. Það var lögfræðingur sem fór yfir þennan lagatexta af okkar hálfu og kynnti sér lögin og viðurlögin í Noregi. Félag kvenna í atvinnulífinu fundaði með atvinnuveganefnd síðasta vetur og kallaði eftir því að það yrðu einhver viðurlög svo að við gætum komið þessum málum á þann stað sem okkur væri sómi að.