149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er nú farið að líða á nóttina og ekki ætla ég að lengja þessa umræðu mjög. En mér er þó ljúft og skylt, eins og ég gat um í andsvari við hv. fyrsta flutningsmann, að gera aðeins grein fyrir viðhorfum mínum.

Ég ætla að byrja á því, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í viðtal sem birtist í Viðskiptablaðinu árið 2015 við Katrínu Pétursdóttur, sem allir ættu að þekkja og oft er kennd við Lýsi. Þar sagði hún orðrétt:

„Eigendur eiga að hafa rétt til þess að velja í stjórn óháð kyni. Mér finnst kynjakvóti í rauninni minnkandi fyrir konur. Af hverju eru þær ekki einfaldlega metnar að verðleikum? Kynjahlutföll fara líka eftir eðli rekstrar“ o.s.frv.

Síðar sagði Katrín Pétursdóttir að auðvitað ættu hluthafar að velja í stjórn og að hluthafar sem gæta hagsmuna fyrirtækisins veldu auðvitað hæfasta fólkið hverju sinni.

Flokkssystir mín, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, vék að því að það væri einhvers konar glerþak þegar kæmi að þátttöku kvenna í stjórnun fyrirtækja. Það kann að vera. Ekki er ég að tala fyrir því að hindra konur í að ná frama í íslensku viðskiptalífi, nema síður sé. Ég held að öll fyrirtæki hafi að markmiði að velja hæfileikaríka einstaklinga til að stýra fyrirtækinu, í framkvæmdastjórn fyrirtækja, í stjórnir fyrirtækja o.s.frv., alveg óháð kyni. Ég held að þessir tímar okkar karla séu bara liðnir, kallatíminn er liðinn.

En það er hins vegar alveg ljóst í mínum huga að með lögum um kynjakvóta er búið að setja glerþak eins og hluthafar í Vátryggingafélagi Íslands fengu að kynnast árið 2016. Þá voru völdin tekin af hluthöfum VÍS sem vildu skipa til verka með þeim hætti að konur væru yfir 60%. Það var ólöglegt samkvæmt þessum lögum. Þar með voru lögin byrjuð að vinna gegn því markmiði sem sett var, að auka hlut og áhrif kvenna í íslensku atvinnulífi. Það varð að fresta aðalfundinum út af þessu. Það voru sem sagt of fáir karlar í framboði til stjórnar, fjórar konur og einn karl og það mátti ekki.

Ég hafna slíkum lögum. Ég held því fram að með þessu sé einmitt verið að vinna gegn því sem hv. flutningsmenn eru að reyna að ná fram, sem er að tryggja að konur hafi eðlilegan framgang hér í íslensku viðskiptalífi. Ég hef bara meiri trú á íslensku viðskiptalífi en svo að það þurfi að neyða menn til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir, og skynsamlegar ákvarðanir í þessum efnum fela auðvitað í sér að velja hæfileikaríkasta fólkið. Það vill bara svo til að það eru oft og tíðum konur. En stundum eru það karlar. Það verður bara svo að vera.

Samkvæmt gildandi lögum er konum t.d. ekki heimilt að taka sig saman og stofna fyrirtæki sem nær ákveðinni stærð og skipa eingöngu konur til verka. Af hverju er það? Það sama á við um karla.

Í mínum huga ganga þessi lög — síðan á að fara að beita fyrirtæki dagsektum eftir þeim — gegn eignarrétti sem fólginn er í hlutafé sem viðkomandi einstaklingur á í hlutafélagi og ráðstöfunarrétti sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja þeim hlutabréfum. Það er sem sagt búið að takmarka ráðstöfunarrétt einstaklinga og ákvörðunarrétt þeirra sem eiga hlutabréf í ákveðnum hlutafélögum. Það gengur í mínum huga gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Við getum deilt um það, en það væri kannski einnar messu virði að einhvern tímann væri látið reyna á það.

Að lokum ætla ég að segja aftur það sem ég var að spyrja 1. flutningsmann, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, að hér: Hér er sett inn eitthvert óljóst ákvæði um fjárhagslegan styrk sem er ekki með neinum hætti skilgreindur í frumvarpinu og ekki gerð tilraun til þess í greinargerðinni að reyna að hjálpa, ef þetta yrði að lögum; það eru engin lögskýringargögn að baki. Hvað er átt við með fjárhagslegum styrk? Hvernig er hann metinn? Það mat hlýtur að vera mismunandi eftir atvinnugreinum. Í einni atvinnugrein þarf töluvert mikinn fjárhagslegan styrk, m.a. í áhætturekstri, svo sem eins og í rekstri flugfélaga, ég tala nú ekki um í sjávarútvegi. En það þarf kannski annan mælikvarða þegar kemur að verslun. Það þarf allt annan mælikvarða þegar kemur að vátryggingastarfsemi o.s.frv. og bönkum.

Þetta er ekki merki um að flutningsmenn hafi unnið frumvarpið með þeim hætti sem ég hefði talið eðlilegt. Og ég fæ heldur engin svör við því af hverju flutningsmenn telja að 156. gr. hlutafélagalaga og 130. gr. einkahlutafélagalaga dugi ekki. Það er alveg skýrt að þau félög sem falla undir kynjakvótaákvæðin eiga ekkert val. Ef tilkynning um þetta kynjahlutfall berst ekki til hlutafélagaskrár er samkvæmt þessum greinum heimilt að beita þann sem vanrækir slíka tilkynningu, sem og aðrar tilkynningar sem lögum samkvæmt á að senda til hlutafélagaskrár og tengjast hlutafélaginu, sektum eða fangelsi í allt að eitt ár. Til viðbótar þessu ætla flutningsmenn að taka upp dagsektir sem eiga síðan með einhverjum hætti að taka mið af einhverju sem kallað er fjárhagslegur styrkur félagsins. Ég skil ekki hvernig flutningsmenn ætla að skilgreina þann styrk og engin tilraun er gerð til þess, hvorki í frumvarpinu sjálfu né í greinargerð.