149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég varð ekki var við að einhverri spurningu væri beint til mín en allt í lagi með það.

Almennt vil ég halda í heiðri að einkafyrirtæki geti tekið þær ákvarðanir sem þau telja þjóna hagsmunum sínum best. Ég er algerlega sannfærður um að ef menn gera það þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af því sem hv. þingmaður kallar fjölbreytileika en getur þýtt allt annað hjá einhverjum öðrum. Fjölbreytileiki felst ekki bara í því að hafa bæði karla og konur heldur líka í bakgrunni, aldri o.s.frv. Fjölbreytileiki er ekki aðeins það að hlutfall kynja sé jafnt. Ef tryggja á fjölbreytileika skulum við fara að ræða það að aldursgreina stjórnir og hafa ákvæði um það, að það sé ákveðið hlutfall eldri borgara, ákveðið hlutfall fólks undir þrítugu og þar fram eftir götunum Ég veit alveg að þá lendum við fyrst í ógöngum, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég vil hins vegar fá að vita og ég fæ ekki svar við er: Af hverju telja flutningsmenn að ákvæði 156. gr. hlutafélagalaga og 130. gr. einkahlutafélagalaga dugi ekki? Af hverju er það ekki nægjanlegt til að ná þeim markmiðum að hægt sé að sekta þann sem vanrækir skyldur sínar eða dæma í allt að eitt ár í fangelsi? Vilja flutningsmenn bæta um betur og hafa dagsektir líka? Ég ætla ekki að tala um skilgreininguna á þeim.