149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er væntanlega vegna þess að klukkan er orðin svona margt sem ég gleymdi spurningunni en spurning mín til hv. þingmanns var hvort þingmaðurinn væri sammála því að þegar við værum á annað borð með lög væri rétt að hafa einhvers konar viðurlög ef fólk virti lögin ekki.

Hv. þingmaður vísar í lögin sem heimila sektir eða jafnvel varðhald ef fyrirtæki vanrækja tilkynningarskyldu til hlutafélagaskrár. Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni að fyrirtæki eru sektuð t.d. fyrir að skila ekki ársreikningum og öðrum pappírum sem þau eiga að skila. En samkvæmt því sem ég best veit, og ég held að við hv. þingmenn förum bara yfir það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, virðist hlutafélagaskrá, og þá ársreikningaskrá, ekki yfirfara þær upplýsingar og koma því áleiðis til fyrirtækjanna að þau séu raunverulega að brjóta lög. Það er eins og einhvern varnagla vanti þarna.

Líklega telja þeir aðilar fyrst og fremst að þetta viðurlagaákvæði sé til þess fallið að hægt sé að beita viðurlögum ef viðkomandi pappírum er ekki skilað, en það hvað stendur í ársreikningum þegar kemur að stjórnum og hlutfalli kynja virðist ekki hafa náð augum og eyrum þeirra. Ef svo væri væri þetta frumvarp kannski óþarft.

Ég held að við hv. þingmaður verðum ekki sammála um það hvort þörf sé á kynjakvóta eða ekki. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég vildi óska þess að ég gæti verið sammála hv. þingmanni og að við þyrftum enga kynjakvóta, en ég er komin á þá skoðun í dag að þess þurfi.

Spurningin mín er þá: Ef við erum með lög í gildi sem eru um nákvæmlega þetta atriði, finnst hv. þingmanni þá eðlilegt að uppi séu einhver ákvæði til að skikka viðkomandi aðila til að fylgja þeim, einhvers konar refsiákvæði eins og lagt er til hér, sektir?