149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:49]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál. Það er greinilegt að þótt það séu góðar undirtektir hér hjá allflestum eru menn ekki alveg á sama stað með það hvort yfir höfuð þurfi að leggja fram þetta frumvarp og beita viðurlögum. Ég vil frekar sýna mannúð og mildi og beita viðurlögum en fangelsisvist. Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta frumvarp er aðlögun á þessum sektum. Það kom fram áðan hjá hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að það þyrfti að greina betur og útskýra hvað það þýddi að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Þetta eru ekki háar upphæðir, 10.000 kr. til 100.000 kr.

Það kemur líka fram að ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð. Ég lít þannig á að ráðherra setji reglugerð sem sýni fram á með hvaða hætti fjárhagslegur styrkur er metinn með vísan til laganna, reglugerðin byggist auðvitað á þessari lagagrein og miðað við þessi lög er útfærslan þá ráðherrans, hvernig hann setur ákvæði um hvað teljist fjárhagslegur styrkur viðkomandi félags. Ég held að það hljóti að vera hægt að finna fyrirmyndir að því í lagabálkum heilt yfir. En ég treysti því að nefndin fari yfir þetta og kalli til þess til þess bæra aðila.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar vísaði til konu sem er framkvæmdastjóri fyrirtækis og er ekki hrifin af kynjakvótum. Það var spurt sisvona: Af hverju eru konur ekki metnar að verðleikum? Það er nú bara það sem konur hafa spurt sig í gegnum aldirnar alveg fram á þennan dag: Af hverju eru konur ekki metnar að verðleikum? Jafnréttisbaráttan í gegnum áratugina og aldirnar jafnvel hefur verið þyrnum stráð og konur hafa þurft að hafa fyrir henni. Það hefur ekkert verið sjálfgefið og þurft að fara ýmsar leiðir til að ná því fram sem við höfum þó náð fram í dag og sem betur fer með tilstyrk jafnréttissinnaðra karla líka.

Auðvitað væri voða gott í hinum fullkomna heimi að þurfa ekki að setja lög sem þessi og ekki setja lög um kynjakvóta. En heimurinn er ekki fullkomnari en það að við þurfum að gefa stöðnuðu og hæggengu samfélagi spark í rassinn og ýta við hlutunum, ýta þeim fram á við. Það hefur áhrif því að það er svo mikilvægt að við höfum fyrirmyndir alls staðar í samfélaginu, alls staðar, og að unga kynslóðin okkar, strákar og stelpur, sjái þær. Ég sá marga unga krakka á Arnarhóli í gær á kvennafrídaginn með baráttuspjöld og spjallaði við nokkur þeirra. Þau voru mjög meðvituð um að stelpur ættu að eiga sama rétt og strákar til að njóta sín í lífinu hvar sem væri og hafa möguleika til þess.

Við þurfum að hafa fyrirmyndir líka í viðskiptalífinu og atvinnulífinu. Ég tel þetta vera skref í þá átt að við göngum þarna fram og uppfyllum þau lög sem við erum búin að setja sjálf og látum ekki það líðast að Alþingi setji lög sem er ekkert gert með. Ég treysti því að þetta mál fái góða og málefnalega meðferð og verði afgreitt frá Alþingi sem fyrst.