149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

siðferði í stjórnmálum.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ekki síður fyrir að þýða orð mín yfir á alþýðumál. Ég kann honum bestu þakkir fyrir það. Í raun og veru er hv. þingmaður að spyrja mig um ástæður þess að ég er í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Það ætti að liggja algjörlega ljóst fyrir og kemur fram í því svari sem hv. þingmaður vitnaði til. Ég tel mikilvægast að þau málefni ráði för sem stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar snýst um og árangur af þeim aðgerðum sem ráðist er í.

Eins og kemur fram í því svari sem hv. þingmaður vitnaði til höfum við séð og munum sjá verulegar úrbætur á umhverfi skattamála hér á landi, úrbætur sem hófust með samstilltu átaki á þingi 2016, var fylgt eftir á síðasta þingi og von er á frekari frumvörpum í þá veru á þessu þingi.

Það er mjög mikilvægt — ég veit að hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um það — að við tökum á þeim kerfislæga vanda sem við höfum séð byggjast upp og sáum sérstaklega byggjast upp fyrir efnahagskreppuna þar sem byggðust upp aflandssvæði og lágskattasvæði, og fjármálakerfið var með glufum sem gerðu að verkum að fólk gat nýtt sér slík svæði.

Er ég þeirrar skoðunar að ekki fari vel á því að fólk í stjórnmálum sé samhliða umfangsmikið í viðskiptum? Já, ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki heppileg ráðstöfun. Þess vegna fagna ég því mjög að eftir hrun tókum við, í mikilli samstöðu líka, upp reglur um hagsmunaskráningu þingmanna. En læt ég það ráða för um ríkisstjórnarsamstarf 2017/2018 hvað hv. þingmenn gerðu á árunum 2004–2008 áður en þær reglur tóku gildi? Þingmenn sem hafa fengið endurkjör síðan í fernum kosningum? Nei, ég geri það ekki.