149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

innleiðing þriðja orkupakka ESB.

[15:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Af þessum tveim sem hér eru að spjalla saman var annar sem beið. Það er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann beið og beið og beið. Það sem við erum að gera er að vinna að því að styrkja hagsmunagæslu okkar í EES-samstarfinu.

Hv. þingmaður þarf ekki að bíða eftir neinni hvítbók. Það er búið að gefa hana út. Hún heitir Gengið til góðs. Ef hv. þingmaður talar við Google frænda og setur þau orð inn getur hann fundið þá skýrslu sem ég hvet hv. þingmann til að lesa.

Hvað varðar þriðja orkupakkann og önnur mál veit hv. þingmaður það mætavel að það var sett á vorþingið vegna þess að menn vildu vinna þau mál eins vel og mögulegt er. Ýmis álitaefni hafa komið upp, ekki bara það sem kom núna í Bændablaðinu heldur hefur ýmislegt komið upp. Menn eru ekki að bíða eftir hvítbók eða nokkrum sköpuðum hlut. Menn eru einfaldlega að vinna þessi mál með hæfustu sérfræðingum til þess að við getum tekið þær ákvarðanir sem skynsamlegar eru.

En af okkur tveim var það ekki sá sem hér stendur sem beið, (Forseti hringir.) það var hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í stóli forsætisráðherra.