149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

afnot af Alþingishúsinu.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða fyrirspurn. Þetta atvik bar þannig að að aldarafmælisnefnd sem starfar í tilefni af fullveldisafmælinu — þar sitja fulltrúar allra flokka á Alþingi og þar á meðal fulltrúi Viðreisnar, flokks hv. þingmanns — óskaði eftir því við mig að ég veitti viðtöku þeim mjólkurfernum sem um ræðir. Afmælisnefndin — og ég ítreka að þar situr fulltrúi flokks hv. þingmanns — hefur óskað eftir samstarfi, ekki bara við stofnanir hins opinbera í tilefni af aldarafmæli fullveldisins heldur líka við frjáls félagasamtök og fyrirtæki. Ég hef skilið markmið afmælisnefndarinnar sem svo að fullveldisafmælið sé ekki einkaeign ríkisins heldur þjóðarinnar allrar og þau hafa því hvatt m.a. einkafyrirtæki til að koma að hátíðahöldum.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef ákvað Mjólkursamsalan, í samráði við téða afmælisnefnd, að setja fræðslu og fróðleik um fullveldisárið 1918 á mjólkurfernur nú fyrir jólin. Síðan var sú ósk borin fram við mig, af hálfu afmælisnefndar, að ég veitti þessum fyrstu fernum viðtöku. Ég kannaði hvort þessi atburður væri með leyfi Alþingis því að við vitum að Alþingishúsið hefur stundum verið notað án leyfis í slíkum tilgangi. Fékkst það staðfest að svo væri og þetta var gert með leyfi Alþingis. Þar sem ég hef tekið þátt í óteljandi viðburðum á þessu afmælisári tengdum fullveldinu, bæði með einkafyrirtækjum, frjálsum félagasamtökum og stofnunum, sá ég í í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að veita þessum mjólkurfernum viðtöku.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa þá trú á forsætisráðherra að hún teljist í hópi hinna miklu áhrifavalda á samfélagsmiðlum en ég veit að vísu ekki hvort það er rétt hjá hv. þingmanni.