149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

afnot af Alþingishúsinu.

[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mér finnst alveg óþarfi af hæstv. forsætisráðherra að sýna þessa hógværð því að vissulega er hún mikill áhrifavaldur, oft í góðum málum, en stundum því miður í vondum málum líka. Þannig er það bara.

En ég verð að segja að ég er afskaplega miður mín yfir þessu svari: Tillaga kemur frá nefnd og þá er bara allt í lagi að nýta þinghúsið. Við erum ekki að tala um einhverja viðburði úti í bæ, fyrir norðan, sunnan, austan eða vestan, við erum að tala um þinghúsið og við erum að tala um að þinghúsið hafi verið notað sem auglýsingavettvangur hér um helgina.

Þetta var dulin auglýsing, það er alveg ljóst, og þess vegna hlýt ég að spyrja: Mun þá forsætisráðherra ekki fetta fingur út í það ef þessi fullveldisnefnd kemur aftur með tillögur? Við erum t.d. með frábæra bjórframleiðendur víða um land. Verður þinghúsið vettvangur fyrir auglýsingu á fullveldisbjór? Eða eigum við að tala um fullveldiskleinur? Við erum með marga frábæra framleiðendur að kleinum, góða bakara, sem geta alveg örugglega bakað fullveldiskleinur.

Verður þinghúsið vettvangur fyrir auglýsingar? Og hver verða þá framtíðarsvörin frá hæstv. forsætisráðherra? Það þýðir ekki að fela sig á bak við nefndina. (Forseti hringir.) Ef slík beiðni kemur aftur til hæstv. forsætisráðherra, hver verða þá viðbrögðin? Á ekki að setja einhvern (Forseti hringir.) ramma utan um það?