149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

dvalarleyfi barns námsmanna.

[15:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að spyrja barnaverndarráðherrann út í frétt sem birtist í morgun um að ársgömlu barni hefði verið neitað um dvalarleyfi en ekki foreldrunum. Tildrög málsins eru þau að foreldrarnir eru með dvalarleyfi á Íslandi sem námsmenn. Þau eignast svo barn á Íslandi. Ef þau væru með dvalarleyfi á einhverjum öðrum forsendum væri barnið að sjálfsögðu með dvalarleyfi á meðan dvalarleyfi foreldranna væri til staðar. En viti menn, af því að þau eru námsmenn fær barnið ekki dvalarleyfi.

Hvað gerist þá? Það sem gerist er að barnið á ekki rétt á félagsþjónustu og velferðarþjónustu í landinu samkvæmt þeim reglum sem búið er að setja. Þegar við skoðum lögin betur og skoðum lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem eru lög á Íslandi og verður að fylgja, á barnið þennan rétt. Ef gerð hafa verið mistök einhvers staðar í útlendingalögum og barnið hefur ekki dvalarleyfi og þar af leiðandi ekki rétt á ákveðinni þjónustu trompa lögin um réttindi barnsins það af því að barnið á rétt meðan það er innan landamæra Íslands samkvæmt lögum og þeim sáttmálum sem við höfum samþykkt. Já, það eru lög og barnið á rétt á þessu.

Þetta er bara einhver hola sem barnið hefur dottið ofan í og er nú réttindalaust eins árs gamalt. Mun ráðherra ekki einhenda sér í að ná barninu upp og moka ofan í þessa holu?