149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

dvalarleyfi barns námsmanna.

[15:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Málefni barna skipta miklu máli og réttarleg staða barna almennt. Hvað þetta einstaka mál snertir hef ég ekki alla málavöxtu nákvæmlega niðurnjörvaða þannig að það þyrfti bara að skoða það. Ég tek vel í það sem hv. þingmaður beinir til mín sem ráðherra, að þetta verði skoðað. Ég vil þó benda á að þetta virðist heyra frekar undir dómsmálaráðherra vegna þess að þarna er um að ræða útlendingalög. Ég veit að endurskoðun stendur yfir á útlendingalögum sem m.a. hlýtur að lúta þeim atriðum sem varða börn og stöðu þeirra. Um leið og ég er jákvæður fyrir því að skoða þetta mál veit ég að dómsmálaráðherra hefur verið að skoða sambærileg mál líka þannig að kannski væri rétt að ég og hæstv. dómsmálaráðherra skoðuðum þetta bara saman. Ég þykist vita að hún tæki vel í það.

Þessari ábendingu er komið til skila og við munum skoða þetta mál, takk fyrir ábendinguna.