149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

skerðingar í bótakerfinu.

[15:33]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Við hv. þingmaður höfum áður í þessum stól rætt um skerðingar almennt, hvort sem það er af þeim sökum sem hv. þingmaður nefnir og tengist séreignarsparnaði, vegna atvinnutekna eða annarra þátta.

Ríkisstjórnin ætlar sér að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Ráðgert er að á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem nú er í vinnslu þingsins séu áætlaðir í það 4 milljarðar kr., frá 1. janúar. Ég hef sagt það í þessum stól og opinberlega líka að þeir fjármunir verði fyrst og fremst notaðir til þess að draga úr skerðingum í kerfinu þannig að það komi sér sem best fyrir þá sem verst standa í þessum hópi.

Nú nálgast 1. janúar. Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt með 4 milljörðum inni tekur við að útfæra hvernig við nýtum þá fjármuni til þess að þeir komi sér sem best fyrir þennan hóp. Þar verður fyrst og síðast horft til skerðinga og annarra atriða sem hagsmunasamtök, Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp, leggja áherslu á. Það hef ég boðað og unnið verður út frá því.

Svar mitt við fyrirspurninni er: Það má ráðgera að 1. janúar verði breytingar þar sem 4 milljörðum verður varið í þá veruna. Hvenær? Já, það eru breytingar í vændum. 1. janúar munum við sjá breytingar.