149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

skerðingar í bótakerfinu.

[15:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir þetta svar að hluta til vegna þess að ég næ þessu ekki. Ég skil ekki svona málflutning. Að draga úr þessu að hluta — ertu þá að segja að þú sért með aðeins minna samviskubit eða að þingið verði með aðeins minna samviskubit og að það sé allt í lagi að halda áfram aðeins meira að níðast á veiku og slösuðu fólki, að plata það fjárhagslega? Við gerum kröfu um að þetta verði leiðrétt. Til hvers er fólk með séreignarsparnað? Er það ekki til þess að eiga eitthvað til að geta t.d. hjálpað sér í ellinni, ef maður verður fyrir örorku? Eru öryrkjar eina stéttin sem má ekki vera með séreignarsparnað? Er það eina stéttin sem má ekki fá styrki eða neitt vegna þess að þá er allt hirt af henni? Þegar sagt er að það eigi að draga bara pínulítið úr þessu með 4 milljörðum vil ég sjá það strax 1. janúar á næsta ári — og við erum alveg tilbúin til þess, ég er viss um að þingið er tilbúið til þess — að það verði settir í þetta 12 milljarðar eða það sem þarf vegna þess að það er búið að taka af öryrkjum nú þegar 25 milljarða í þessu samhengi. Það er kominn tími til að skila fénu.